Mikið álag á vef Vinnumálastofnunar

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Búið er að opna fyrir umsóknir um minnkað starfshlutfall á vef Vinnumálastofnunar og að sögn Unnar Sverrisdóttur, forstjóra Vinnumálastofnunar, er mjög mikið álag á vefinn þessa stundina. Þrátt fyrir mikið álag hefur tekist að halda svæðinu opnu þar sem sótt er um slíkar bætur rafrænt en svæðið var opnað klukkan 10:15 í morgun.

Mjög margar umsóknir um atvinnuleysisbætur og tilkynningar um uppsagnir á starfsfólki hafa borist til Vinnumálastofnunar í mars og er fjöldinn margfalt meiri en á sama tíma í fyrra.

Alþingi hefur samþykkt frumvarp félags- og barnamálaráðherra um rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta samhliða minnkuðu starfshlutfalli vegna tímabundins samdráttar í starfsemi vinnuveitenda. Lögin fela í sér að laun sem greidd eru samhliða minnkuðu starfshlutfalli koma ekki til skerðingar á atvinnuleysisbótum. Vinnumálastofnun hefur umsjón með umsóknum um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfalls.

Umsóknir um atvinnuleysisbætur vegna minnkaðs starfshlutfall munu gilda afturvirkt frá þeim degi sem starfshlutfall var minnkað, allt aftur til 15. mars 2020. Lögin gilda til 1. júní 2020. Á þetta bæði við um launamenn og sjálfstætt starfandi.

Launamaður sem minnka þarf starfshlutfall sækir um greiðslur frá Vinnumálastofnun á þar til gerðri umsókn á mínum síðum atvinnuleitenda. Atvinnurekandi skilar inn staðfestingu á breyttu starfshlutfalli og áætlun um mánaðartekjur launamanns á síðum atvinnurekenda.

Komi til þess að atvinnurekandi fari í gjaldþrot heldur launamaður rétti sínum til greiðslna úr Ábyrgðarsjóði launa miðað við fyrra starfshlutfall.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert