Skjálfti upp á 3,4 stig

Þorbjörn gnæfir yfir Grindavík.
Þorbjörn gnæfir yfir Grindavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jarðskjálfti af stærð 3,4 varð rétt norðan við Grindavík klukkan 9:44. Skjálftans varð vart í Grindavík. Nokkur skjálftavirkni hefur verið þar síðustu vikur í tengslum við landris á svæðinu. Óvissustig vegna landriss er enn í gildi hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.

Um þrjú í nótt reið yfir jarðskjálfti af stærð 3,7 um 5,3 km norðvestur af Grindavík, samkvæmt töflu á vef Veðurstofu Íslands en sá skjálfti hefur ekki verið yfirfarinn og gæði hans ekki mikil. 

Tæplega 1.500 jarðskjálftar voru staðsettir með SIL-mælakerfi Veðurstofu Íslands í vikunni sem leið. Enn er mikil virkni á Reykjanesskaganum eftir að jarðskjálftahrina hófst þar 12. mars, en virkni hefur verið viðvarandi þar á árinu. Um 1.000 jarðskjálftar mældust á því svæði. Stærsti skjálftinn í vikunni var af stærð 4,2 þann 18. mars kl. 10:32 um 5 km NV af Gunnuhver. Skjálftinn fannst víða á suðuvesturhorni landsins. Þann 19. mars kl. 16:53 varð skjálfti af stærð M3,5 um 3,5 km NV af Grindavík.

Skjálfti af stærð 3,0 varð við Kleifarvatn 20. mars kl. 21:21, en lítil hrina var í gangi þar þann sama dag. Virkni hélt áfram við Herðubreið og Nesjavelli en með minna móti. Minni virkni var í Vatnajökli í þessari viku en þeirri síðustu. Einn skjálfti mældist í grennd við Heklu og einn í Mýrdalsjökli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert