„Skrýtið að geta ekki gert þessa tilraun“

Raufarhöfn er á norðausturhorni landsins.
Raufarhöfn er á norðausturhorni landsins. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

„Mér finnst svarið einkennilegt og skrýtið að geta ekki gert þessa tilraun. Ekkert beint samband var haft við okkur til frekari skýringa og samráðs segir,“ Atli Árnason annar tveggja heimilislækna á norðaust­ur­horn­inu, hvar eru Kópa­sker, Raufar­höfn og Þórs­höfn, sem vilja að lokað verði fyr­ir um­ferð inn á svæðið á næst­unni í varn­ar­skyni vegna kór­ónu­veirunn­ar. Svæðið sem um ræðir nær frá Jökulsá í Öxarfirði  að vestan og að Brekknaheiði að austan. Íbúar á svæðin eru um 700 talsins.  

Erindið var tekið upp á samráðsfundi aðgerðastjórnar almannavarna sem sátu lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Erindinu var hafnað.

Í svari sem barst við erindinu er það mat sóttvarnarlæknis að lokun þjóni ekki tilgangi fremur en að loka landinu öllu. Það fresti frekar vandanum en leysi hann. Bent er á að fræðilegar niðurstöður á lokun landsvæða eða landa skili ekki tilgangi nema ef lokunin er algjör eða a.m.k 99% lokun fyrir allri umferð í einhverja mánuði eða ár. Jafnvel í slíkum tilfellum mætti búast við faraldri á svæðinu einhverjum vikum eða mánuðum síðar.  

Hegðun veirunnar til lengri tíma óreynd

Atli gefur lítið fyrir þessi rök og segir þau ekki halda. Hann segir að sóttvarnalæknir sé um leið þá líka að segja að varnarhugmyndir þeirra fyrir fólk í áhættuhópum á t.d. hjúkrunarheimilum haldi ekki heldur. „Hversu lengi þarf að vera sjálfstætt sóttvarnaumdæmi. Því er sjálfsvarað. Það verður hægt að opna  á sama tíma og sóttvarnarlæknir blæs af viðbrögðin innanlands almennt. Hann veit ef til vill hvenær það verður?“ segir hann. 

Í þessu samhengi vísar Atli til þess að þegar spænskaveikin kom til landsins 1918 og barst hann ekki norður yfir heiðar því lokað var fyrir alla umferð þangað. Hann segist ekki vita til þess að fólk hafi lent í vandræðum að gagni eftir að lokuninni hafi verið aflétt. Hann segir enga áhættu felast í þessari tilraun. „Það má aldrei gleyma því að hegðun þessa virus til lengri tíma í samfélögum er óreynd. Það heldur enginn einn á sannleikanum í málinu,“ segir hann.

Atli bendir á að þessi hugmynd um að loka afmörkuð svæði af sé ekki ný af nálinni. Hann nefnir t.d. bæinn Mehamn nyrst  í Noregi en gripið var til þessara aðgerða í óþökk stjórnvalda í Osló en er haldið til streitu af sveitarstjórninni. Sama mun hafa verið í einhverjum þorpum á Ítalíu sem gerðu slíkt hið sama og hafa sloppið miklu betur en aðrir enn komið er við veiruna. 

Læknarnir vilja loka svæðinu með hag íbúa að leiðarljósi. Þórshöfn, …
Læknarnir vilja loka svæðinu með hag íbúa að leiðarljósi. Þórshöfn, mynd úr safni. mbl.is/Líney Sigurðardóttir

„Sóttvarnir eru ekki ný geimvísindi

„Sóttvarnir eru ekki ný geimvísindi mörg grunnatriði í sóttvarnarfræðunum eru gagnreynd í um 100 ár. Margt af þessu gamla er enn í gildi og það hefur sýnt sig að það er ekki örugg ein leið réttari í þessu heldur en önnur,” segir hann. Það eru allir að prófa sig áfram og engar aðferðir verða að gagnreyndum vísindastaðreyndum fyrr en eftir miklu lengri tíma. Það kemur t.d. í ljós að ýmsum þróuðum Asíuríkjum gengur miklu betur en vesturlöndum með miklu markvissari skimunum og sóttkvíum. Sóttvarnaryfirvöld hér hafa gert það mjög vel að þeim hluta sem snýr að íslenskum ferðamönnum í ölpunum þó ákvarðanir hefðu mátt koma fyrr um hættusvæði. Hann bendir á að erlendir ferðamenn frá hættusvæðum hafa verið án nokkurs eftirlits hér á landi.

Atli tekur fram að honum finnist frábært að íslensk erfðagreining skuli leggja heimsvísindum lið í þessum efnum og tími er mjög mikilvægur þáttur i því. Þær aðferðir að geta rakið smitleiðir með stökkbreytingum er mjög mikilvægt tæki sem hafa sýnt margar smitleiðir inn í landið.

Atli Árnason læknir.
Atli Árnason læknir.

Atli og samstarfsmaður hans Sigurður Halldórsson læknir hafa útlistað nákvæmlega hvernig hægt væri að útfæra þetta og halda öllu atvinnulífi gangandi á meðan. Öll umferð yrði stöðvuð nema fyrir vöruflutninga, enda lúti þeir sérstökum öryggisreglum þar sem tryggt er að bílstjórar komi hvergi í bein samskipti við heimamenn nema klæddir varnarbúnaði. 

Svæðið þetta spannar Núpasveit, Melrakkasléttu og Þistilfjörð og þéttbýlisstaðirnir eru þrír; Kópasker, Raufarhöfn og Þórshöfn. Lagt er til að þeir sem koma inn á svæðið til að vinna á svæðinu eða eiga þangað nauðsynleg erindi verða að sæta tveggja vikna sóttkví eftir komu. Öðrum verði vísað frá svæðinu. Þurfi fólk að fara út af svæðinu gildi hið sama þegar aftur er snúið. Lögregla fylgi þessu eftir á sóttvarnarmörkum. 

Atli segir þá félagana hafa runnið blóðið til skyldunnar að reyna að finna lausnir fyrir íbúa svæðisins. Stór hluti þeirra eru eldri borgarar og þegar í áhættuhóp. Ef fólk geti ekki sinnt störfum sínum vegna veirunnar á svæðinu sé það virkilega slæmt.

Vilja finna aðrar leiðir fyrir sína skjólstæðinga

„Mér finnst eðlilegt að menn leyfi sér að efast. Við viljum finna aðrar leiðir fyrir okkar skjólstæðinga. Það er sorglegt að ekki hafi verið hlustað á okkur. Við erum að missa af lestinni á hverjum degi,“ segir hann. Hægt yrði að prófa þetta í það minnsta í tvær til þrjár vikur og sjá hvort smit bærist inn á svæðið.

„Þetta er nýr veira og í stöðugri breytingu og við þekkjum hana ekki vel. Það kom bersýnilega í ljós þegar Kári [Stefánsson] greindi hana að uppruni var frá fjölmörgum stöðum,“ segir Atli. Hann tekur fram að sóttvarnalæknir sem og almannavarnateymið hafi staðið sig mjög vel að mörgu leyti en hann er samt ekki sammála þeim í einu og öllu. Til að mynda segir hann viðbrögðin við þessari beiðni um að loka svæðinu séu „öfgakennd“ og beri ekki vott um opinn hug um margar leiðir.

Hann telur eðlilegt að ferðamenn sem komi hingað séu skimaðir við komu til landsins bæði með hitamælingum og mögulega sýnatöku. „Við fórum fljótt að hafa varan á gagnvart fólki sem var að koma erlendis frá og báðum um að halda sig frá í 2 vikur þrátt fyrir að vera ekki að koma frá skilgreindu hááhættusvæði sem urðu það þó nokkrum dögum seinna hjá almannavörnum. 

Undanfarið hefur honum fundist almannavarnateymið hafa siglt í meiri óvissu vegna pinnaskortsins. Þegar skorturinn kom upp hefði verið eðlilegt að grípa öryggisins vegna til frekari aðgerða. Í þeim efnum telur hann til dæmis æskilegt að loka öllum grunn- og leikskólum eldri nemendur eigi auðveldara að fara eftir leiðbeiningum um sóttvarnir.

mbl.is