„Þú þarft að gefa mikið af þér“

Smitrakningarteymi almannavarna ríkislögreglustjóra að störfum. Ævar er annar frá vinstri …
Smitrakningarteymi almannavarna ríkislögreglustjóra að störfum. Ævar er annar frá vinstri en auk lögreglumanna eru heilbrigðisstarfsmenn hluti af teyminu. Ljósmynd/Lögreglan

Aðeins hefur bæst í smitrakningarteymi almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra frá því að Ævar Pálmi Pálmason aðstoðaryfirlögregluþjónn og yfirmaður teymisins ræddi við fjölmiðla á upplýsingafundi í síðustu viku en nú eru um 40 manns í teyminu. Hann segir starfið ganga nokkuð vel þó róðurinn sé farinn að þyngjast.

„Þetta gengur bara ágætlega en þetta er náttúrulega mjög þungt. Jákvæðum sýnum hefur fjölgað þannig að það eru fleiri sem þarf að ná til og þeir eru fleiri sem eru útsettir fyrir smitum,“ segir Ævar. Vonir standa til að appið sem verið er að þróa til smitrakninga geti auðveldað teyminu starf sitt. „Það mun allavega hjálpa fólki að rifja upp síðustu ferðir sínar og staðsetningar. Það er bara allt í þróun,“ segir Ævar.

Langir dagar

Teymið tekur til starfa klukkan átta á morgnana og síðustu daga hefur verið unnið fram yfir miðnætti. Unnið er á tvískiptum vöktum en Ævar segir að stjórnendur séu gjarnan að vinna í um 16 klukkustundir á sólarhring. „Þetta er mikið álag, alveg gríðarlegt álag og margar hindranir sem þarf að leysa úr á hverjum einasta degi. Það eru mörg vafamál sem þarf að taka afstöðu til og ákvarðanir vegna.“

Algengustu málin sem krefjast mikillar yfirlegu eru þegar um mikinn fjölda á mögulegum smitum  er um að ræða. Þá er um að ræða skóla, vinnustaði eða æfingahópa. „Einnig ef að hinn smitaði hefur farið víða eftir að hann fór að sýna einkenni. Þá getur verið um umfangsmiklar rakningar að ræða. Líka er vandasamt þegar fólk áttar sig engan veginn á því hvar það gæti hafa smitast. Ef það hefur farið varlega eða getur ekki séð hver í þeirra umhverfi gæti mögulega hafa orðið fyrir smiti. Þá er það órekjanlegt en við rekjum samt ferðir viðkomandi til þess að koma þá þeim sem hann hefur verið í návígi við í sóttkví,“ útskýrir Ævar. 

„Þetta náttúrulega snýst um það að ná til sem flestra sem hafa verið útsettir fyrir smiti á sem skemmstum tíma til þess að koma þeim í sóttkví af því að sóttkvíin er að virka til að hægja á faraldrinum og teygja á tímanum sem þetta gengur yfir.“

Ævar Pálmi Pálma­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn, sat fyrir svörum á upplýsingafundi almannavarna …
Ævar Pálmi Pálma­son, aðstoðar­yf­ir­lög­regluþjónn, sat fyrir svörum á upplýsingafundi almannavarna í síðustu viku. Ljósmynd/Lögreglan

Nú varð fyrsta dauðsfallið vegna útbreiðslu veirunnar hér á landi í vikunni. Hefur það haft áhrif á ykkar starf og samtölin sem þið eigið við fólk?

„Ég skynja nú ekki mikla breytingu bara við það. Þau hafa verið þyngjast alveg frá upphafi. Sumir eðlilega eru óttaslegnir vegna óvissu og vita ekki alveg við hverju er að búast. Fólkið sem er hjá okkur og er að tala við fólk eru allt sérfræðingar í að leysa þessi erfiðu símtöl. Markmiðið er að skilja við þann sem það var að tala við þannig að þeir hafi meðtekið allar upplýsingar og líði helst betur en við upphaf samtalsins. En þessi símtöl taka alveg gríðarlega á fyrir þá sem eru að hringja út. Því það er erfitt að vera í jafnvel tólf tíma á dag að hringja í fólk og færa því þær fréttir að það sé að fara í sóttkví eða í einangrun af því að það hefur smitast. Þú þarft að gefa mikið af þér,“ segir Ævar en símtölin geta oft tekið dágóða stund.

Hvaða áskoranir eru framundan nú þegar smitum er að fjölga og dreifast?

„Stærsta áskorunin eins og er að halda teyminu gangandi. Láta hjólin snúast án þess að það hökti. Við áttum okkur á því að veiran færist alltaf nær og nær teyminu sjálfu. Fólk á heimilum þeirra sem eru í teyminu hefur þurft að fara í sóttkví og teymismeðlimir sjálfir. Þannig að það er helsta áskorunin, að halda þetta út.“


mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert