Tryggi hlífðarbúnað fyrir heilbrigðisstarfsfólk

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra.
Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra mælir á morgun fyrir frumvarpi um undanþágu frá CE- merkingu á hlífðarfatnaði heilbrigðisstarfsfólks. Markmið frumvarpsins, sem unnið var í samstarfið við heilbrigðisráðuneytið, er að tryggja nægjanlegt framboð af hlíðarfatnaði fyrir heilbrigðisstarfsfólk þrátt fyrir hugsanlegan skort á slíkum búnaði í Evrópu vegna COVID-19 faraldursins.

Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins.

Hratt gengur á birgðir af hlífðarfatnaði í landinu og óvissa um hvor framleiðendur CE-merkts hlífðarfatnaðar geti annað eftirspurn á Evrópska efnahagssvæðinu. Samkvæmt frumvarpinu getur Vinnueftirlit ríkisins heimilað, að fenginni rökstuddri beiðni, innflutning á hlífðarfatnaði sem ekki er CE-merktur til nota hér á landi vegna útbreiðslu COVID-19 veirunnar.

Innflytjendur verða þó að tryggja að hlífðarfatnaðurinn uppfylli viðurkenndar öryggis- og heilbrigðiskröfur. Ákvæðið tekur gildi um leið og það verður samþykkt og gildir til 1. janúar 2021. Frumvarpið var unnið í samstarfi við heilbrigðisráðuneytið, utanríkisráðuneytið og Vinnueftirlit ríkisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert