40 börn undir eftirliti hjá Landspítalanum

mbl.is/Hjörtur

Alls eru 697 einstaklingar í eftirliti hjá nýrri COVID-19-göngudeild Landspítalans. Þar af eru 40 börn. Verið er að skoða húsnæði sem nota mætti sem varasjúkrahús.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í stöðuskýrslu almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra og á vef Landspítalans frá því í gær.

Heilbrigðisstarfsmenn í samhæfingarstöðinni eru að skoða húsnæði sem nota mætti sem varasjúkrahús í samstarfi við Landspítalann. Jafnfram eru þeir að setja saman heildaráætlun fyrir heilbrigðisstofnanir um viðbrögð við COVID-19, segir í stöðuskýrslu almannavarna frá því síðdegis í gær.

Á Landspítalanum er búið að breyta dagdeild barna, 23E, í móttöku COVID-19-veikra barna sem þarfnast innlagnar. Flyst starf dagdeildar barna á barnadeild 22E. COVID-19-göngudeild barna verður í Birkiborg, eins og hjá öðrum COVID-19-veikum, samkvæmt upplýsingum frá farsóttarnefnd Landspítalans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert