Aukið gagnamagn og tvöföld farsímanotkun

Notkun farsíma hefur tvöfaldast ímínútum talið séu gögn skoðuð fyrir …
Notkun farsíma hefur tvöfaldast ímínútum talið séu gögn skoðuð fyrir og eftir samkomubann samkvæmt upplýsingum frá Símanum. Gagnamagn heimatenginga hefur sömuleiðis aukist umtalsvert. Myndin er úr safni. AFP

Augljóst er að samkomubann og vera í sóttkví hefur breytt lífsmynstri margra síðustu daga. Margir vinna að heiman og aðrir sækja í ýmiss konar afþreyingu.

Notkun farsíma hefur tvöfaldast í mínútum talið séu gögn skoðuð fyrir og eftir samkomubann samkvæmt upplýsingum frá Símanum. Gagnamagn heimatenginga hefur sömuleiðis aukist umtalsvert, símtöl í gamla heimasímanum hafa aukist um 30% og sjónvarpsáhorf hefur farið í hæstu hæðir.

„Í raun hefur öll notkun aukist, sama hvert við horfum nema hjá erlendum ferðamönnum, sú umferð er nær horfin, en aðeins í bili vonandi. Við slógum met í fjölda spilana núna í síðustu viku í Sjónvarpi Símans. Þá var 1,1 milljón spilana, sem er ágætis bæting frá fyrra meti. Vikan var eins og jóla- eða páskafrí og við búumst við því að þessi vika gæti orðið enn stærri,“ segir Bryndís Þóra Þórðardóttir, vörustjóri hjá Símanum.

Margir vinna nú að heiman og aðrir finna sér afþreyingu.
Margir vinna nú að heiman og aðrir finna sér afþreyingu. mbl.is/​Hari

Bryndís segir jafnframt að mikil aukning hafi orðið yfir daginn hjá Sjónvarpi Símans, um 40%. „Það hefur rokið upp yfir daginn. Svo er áhugavert að fólk hættir streyminu klukkan 14 og stillir á beina útsendingu frá blaðamannafundi Almannavarna,“ segir Bryndís og bætir við að efnisúrval hafi verið stóraukið í Sjónvarpi Símans í kjölfar heimsfaraldurs. „Við flýttum innsetningu á fjölbreyttu efni til að vera til staðar í þessu ástandi.“ Þá hafi meginþorri þjóðarinnar stillt á tónleika með Helga Björns um liðna helgi og verði þeir endurteknir um næstu helgi.

Svipaða sögu er að segja frá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone. Samkvæmt upplýsingum frá Lilju Birgisdóttur, samskiptastjóra Sýnar, hefur hefðbundin netnotkun á heimatengingum aukist um 20-30% að undanförnu.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert