Icelandair í leiguflugi fyrir norska herinn

Icelandair hefur fengið margar fyrirspurnir vegna leiguflugs.
Icelandair hefur fengið margar fyrirspurnir vegna leiguflugs.

Flugvél Icelandair fór í morgun í leiguflug fyrir norska herinn. Fyrst lenti hún á Bardufoss-flugvellinum og næst var förinni heitið á Örland-flugvöllinn. Því næst fer vélin til Ósló og svo aftur heim til Íslands.

„Við erum að þessa dagana að fá töluvert af fyrirspurnum um möguleg leiguflug hingað og þangað í heiminum en þetta flug er fyrir norska herinn,“ segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, sem hefur engar frekari upplýsingar um flugið.

Frá Alicante á Spáni.
Frá Alicante á Spáni. Ljósmynd/Wikipedia-Diego Delso

Íslendingar sóttir til Alicante 

Icelandair hefur einnig bætt við leiguflugi til Alicante sem verður farið á föstudaginn. Flugvél af gerðinni 757 sem tekur 180 manns flýgur tóm til Spánar og sækir Íslendinga sem þar eru staddir. Ásdís Ýr segir að mikil eftirspurn hafi verið eftir að flugi til Íslands frá Alicante og að vel hafi gengið að bóka í flugvélina í gær.

mbl.is