Mögulegt að veiran hafi borist hingað fyrr

„Í svona sjúkdómi eins og þessum þegar meirihlutinn er með …
„Í svona sjúkdómi eins og þessum þegar meirihlutinn er með lítil eða engin einkenni þá gæti það bara vel verið án þess að maður viti nokkuð af því,“ segir Þórólfur. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sóttvarnalæknir segir ómögulegt að segja til um það hvort kórónuveirusmit hafi borist hingað til lands mun fyrr en talið hefur verið líkt og virðist hafa gerst í Bretlandi. Hann segir mögulegt að svo hafi verið.

„Í svona sjúkdómi eins og þessum þegar meirihlutinn er með lítil eða engin einkenni þá gæti það bara vel verið án þess að maður viti nokkuð af því,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir í samtali við mbl.is.

Fjallað hefur verið um í breskum miðlum að breskur karlmaður hafi hugsanlega komið smitaður af kórónuveirunni frá Ischgl í Austurríki um miðjan janúar og smitað alla fjölskyldu sína í East Sussex. Reynist það rétt mun útbreiðsla kórónuveirunnar hafa hafist mánuði fyrr en talið hefur verið, en eins og staðan er núna er fyrsta til­fellið hjá smituðum Breta skráð 31. janú­ar og fyrsta skráða til­fellið um smit inn­an Bret­lands 28. fe­brú­ar.

Fjallað hefur verið um í breskum miðlum að breskur karlmaður …
Fjallað hefur verið um í breskum miðlum að breskur karlmaður hafi hugsanlega komið smitaður af kórónuveirunni frá Ischgl í Austurríki um miðjan janúar. AFP

Fjöldi Íslendinga hefur greinst með kórónuveiruna eftir heimkomu frá Ischgl í Austurríki síðan í lok febrúar og gerðu íslensk yfirvöld heilbrigðisyfirvöldum í Austurríki viðvart um ástandið í Ischgl.

Ekki hefur tekist að rekja um þriðjung allra smita sem upp hafa komið á Íslandi og telur Þórólfur ekki útilokað að einhver þeirra megi rekja til einstaklinga sem hugsanlega hafi komið smitaðir frá Ölpunum áður en fyrsta kórónuveirusmitið var staðfest hérlendis.

„Við vitum að í byrjun, þegar við vorum með þessa uppsprettu, þá náðum við að stoppa mjög marga og hefta frekari útbreiðslu vel. En hvort einhver smit annars staðar frá hafi leynst í samfélaginu er alveg líklegt, en maður getur í sjálfu sér ekkert fullyrt um það.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert