„Myndi ekki undra þó að hallinn færi í 200“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, gagnrýndi sérstakt tímabundið fjárfestingarátak ríkisstjórnarinnar á Alþingi dag og sagði að of takmarkaðar fjárhæðir færu í nýsköpun. Sömuleiðis væri fjárhæðin, 15 milljarðar, of lág. Þá setti Ágúst fjárhæðina í samhengi við halla ríkissjóðs eftir hrun en hann var þá 216 milljarðar. 

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði því til að um væri að ræða gríðarlega innspýtingu þó vissulega væri mikilvægt að styðja við nýsköpun. Það væri nú þegar gert og sagði Bjarni að ekkert vit væri í því að setja fjárhæð fjárfestingarátaksins í samhengi við halla ríkissjóðs eftir hrun. Hann benti á að það gæti vel verið að halli ríkissjóðs yrði 200 milljarðar eða meiri í lok árs.

Við sjáum að nýsköpunarkaflinn í frumvarpinu er einungis 2 milljarðar sem er 0,2% af fjárlögum ríkisins. Þetta væri innspýtingin sem myndi skipta okkur gríðarlega miklu máli á þessum tímapunkti,“ sagði Ágúst Ólafur og hélt áfram:

„Sömuleiðis vil ég spyrja hæstvirtan ráðherra af hverju ekki hafi verið settur aðeins meiri kraftur í hinar verklegu fjárfestingar. Við sjáum að sveitarfélögin, hvort sem litið er til Suðurnesja eða fyrir norðan, vestan eða á höfuðborgarsvæðinu, hafa komið upplýsingum til ráðuneytisins um að fleiri verkefni séu tilbúin og væri hægt að ráðast í núna.“

Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Hari

Bjarni andmælti því að 15 milljarðar væru lítil fjárhæð á þessum tímapunkti.

 „Ef við skoðum það bara og setjum í samhengi við að heildarframlögin til samgöngumála á þessu ári er þetta gríðarleg innspýting. Það er ekkert sem kemur í veg fyrir að sveitarfélögin komi með og fari líka í að hraða framkvæmdum. Við vonumst til þess og væntum þess að sveitarfélögin geri það. Við erum með væntingar um að opinberu félögin gerir það líka.

Sagði nýsköpun lykilatriði í ástandi sem þessu

Ágúst kom þá aftur upp í pontu og benti á að fyrsta árið eftir hrun hafi ríkissjóður verið rekinn með 216 milljarða króna halla. 

„Sá halli hjálpaði okkur að verja velferðina og störf. 15 milljarðar eru lítið í þessu samhengi, þetta er 1,5% af ríkisfjármálunum. Við getum gert meira og við getum gert það núna. Sveitarfélögin eru tilbúin með verkefni sem hægt væri að ráðast í núna þegar kemur að samkeppnissjóðunum. Tækniþróunarsjóður er ekki stór biti, þetta eru rúmir 2 milljarðar. Við fáum upplýsingar í fjárlaganefnd að einungis einn þriðji af þeim verkefnum sem skora hæst fá úthlutun úr þeim sjóði. Það er afskaplega auðveld leið fyrir okkur til að bregðast við þessu ástandi með því að setja ríflega í þessa sjóði. Nýsköpun er lykilatriði í svona ástandi. Það eru nýsköpun og verklegar opinberar fjárfestingar sem munu koma okkur upp úr þessu.“

„15 milljarðar eru há fjárhæð“

Bjarni var áfram ósammála því að 15 milljarðar væru of lítil fjárhæð og sagði að það gæti vel verið að halli ríkissjóðs yrði meiri en 200 milljarðar þegar upp verður staðið á þessu ári.

Það er gríðarleg innspýting ef menn vilja meina að það sé bara ekkert mál að henda 30 milljörðum út á seinni átta, níu mánuðum ársins. Það er misskilningur. 15 milljarðar eru há fjárhæð. Ég ætla ekki að gera lítið úr því að sjóðirnir séu mikilvægir enda erum við að efla sjóðina í þessari tillögu. Við erum að setja 400 milljónir í bæði grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir, en það er ekkert vit í því að setja þessa fjárhæð í samhengi við hallann eftir hrun. Hallinn núna er allt annað umræðuefni en þetta átak og mig myndi ekki undra þó að hallinn færi í 200 milljarða. Það er augljóst að hann verður langt fyrir norðan 100, en hann gæti alveg orðið 200 og jafnvel meira en það þegar upp verður staðið á þessu ári. Það hefur ekkert að gera með það hvert fjárfestingarátakið er.“

mbl.is

Kórónuveiran

5. apríl 2020 kl. 13:25
1486
hafa
smitast
428
hafa
náð sér
38
liggja á
spítala
4
eru
látnir