Ríkið sýknað af kröfum Guðjóns

Guðjón Skarphéðinsson stefndi íslenska ríkinu.
Guðjón Skarphéðinsson stefndi íslenska ríkinu. mbl.is/Golli

Íslenska ríkið var sýknað af kröfu Guðjóns Skarphéðinssonar vegna ára­langr­ar órétt­mætr­ar frels­is­svipt­ing­ar hans vegna Guðmundar- og Geirfinnsmála sem hljóðaði upp á um 1,3 milljarða króna. Guðjóni er jafnframt gert að greiða ríkinu eina og hálfa milljón króna í málskostnað. Dómur þess efnis féll í Héraðsdómi Reykjavíkur. 

Guðjón líkt og Kristján Viðar Júlí­us­son, sem einnig hefur gert kröf­u á ís­lenska ríkið vegna ára­langr­ar órétt­mætr­ar frels­is­svipt­ing­ar sinn­ar, njóta gjaf­sókn­ar­rétt­ar í mál­um sín­um. 

Í dómnum segir meðal annars að sýkna beri ríkið af öllum kröfum Guðjóns „þar sem hann á ekki lögvarinn rétt til skaðabóta vegna atvika þeirra er áttu sér stað á tímabilinu 12. nóvember 1976 og þar til reynslulausn lauk haustið 1985.“

Ennfremur segir að ekki hafi verið talið að Guðjón hafi verið beittur harðræði eða ólögmætri þvingun. Í dómnum er vísað í viðtal við Guðjón í Morgunblaðinu frá 13. febrúar 1996 en þar kom fram „að hann hefði „ekki verið beittur harðræði í varðhaldinu““. Einnig er vísað til dagbókafærslna Guðjóns um að hann hafi ekki gert athugasemdir við setuna í Síðumúlafangelsinu. Kröfur vegna Síðumúlafangelsisins eru fyrndar. 

Í stefnu Guðjóns kom einnig fram að hann var ekki sammála niðurstöðu endurupptökunefndar um Guðmundar- og Geirfinnsmálsins um að lögregla og dómari hafi sýnt af sér refsilausa háttsemi. Dómari telur þennan málflutning „aðfinnsluverðan“, þar sem vegið er að æru opinberra starfsmanna, lifandi sem látinna, og þeir sakaðir um refsiverða háttsemi í störfum sínum.“ Segir í dómnum. 

Dóminn kvað upp Sigrún Guðmundsdóttir. 

mbl.is