Samtal vegna forrits „mjög þétt“ frá upphafi

Málið hefur tekið miklum breytingum síðan Persónuvernd gaf álit sitt …
Málið hefur tekið miklum breytingum síðan Persónuvernd gaf álit sitt síðastliðinn föstudag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Persónuvernd hefur átt mjög gott samtal við embætti landlæknis og sóttvarnarlækni vegna nýs smitrakningarforrits sem er í undirbúningi hérlendis vegna kórónuveirunnar. Eins og komið hefur fram mun þurfa sérstakt samþykki notenda fyrir forritinu. Ef ekki hefði þurft að koma til sérstök löggjöf þess efnis.

Þetta segir Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. Hún bendir á yfirlýsingu sem var send út síðastliðinn föstudag frá Evrópska persónuverndarráðinu sem Persónuvernd á sæti í þar sem farið er yfir málin vegna vinnslu persónuupplýsinga í tengslum við COVID-19. „Það er mjög margt hægt að gera á grundvelli nýrra persónuverndarlaga,“ segir hún.

Rúmast innan persónuverndarlöggjafar

Sóttvarnarlæknir hafði samband við Persónuvernd síðasta föstudag þar sem hann kynnti erindi sem hafði upphaflega komið frá almannavörnum. Landlæknir var með í þeim samskiptum. Óskað var eftir áliti frá Persónuvernd hið fyrsta en síðan þá hefur málið tekin heilmiklum breytingum, að sögn Helgu. „Það hefur verið mjög þétt samtal alveg frá upphafi.“

Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar.
Helga Þórisdóttir, forstjóri Persónuverndar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Spurð hvað Persónuvernd hafi lagt áherslu á í tengslum við vinnslu forritsins segir hún útgangspunktinn hafa verið hversu hart eftirlitið eigi að vera, enda hafi sum Evrópulönd ætlað að fá upplýsingar án samþykkis almennings. Í slíkum tilfellum þarf löggjöf að koma til sem heimilar slíkt. Löggjöfin þyrfti að gilda tímabundið og gögnum yrði eitt þegar ástand varir ekki lengur. „Með því að gera þetta eins og áform eru uppi núna um að gefa samþykki þá rúmast þetta innan persónuverndarlöggjafar,“ greinir Helga frá.

Geymslan á ábyrgð landlæknis

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn sagði fyrr í vikunni að fólk þurfi ekki að hafa áhyggj­ur af því að aðrir geti séð gögn­in úr forritinu eða að þau verði notuð síðar. Smitrakningarreymið muni aðeins sjá þau og þeim verði eytt eftir að verkefninu lýkur. Helga kveðst ekki geta tjáð sig um geymslu gagnanna því endanlega niðurstaða er ekki komin vegna þess. Verið er að búa til íslenska hönnun og yrðu gögnin geymd hér, samkvæmt þeim upplýsingum sem nú liggja fyrir. Geymslan yrði á ábyrgð embættis landlæknis.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir.
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn, Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir og Alma Möller landlæknir. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nægilega mikið öryggi

Að minnsta kosti 60% farsíma á landinu þurfa að nota forritið svo að það virki sem skyldi og myndi það einfalda vinnu smitrakningarteymis til mikilla muna. „Miðað við það verklag sem lagt er upp með á öryggið að vera nægjanlega tryggt til að ná því sem þarna er verið að óska eftir, þ.e. að ná til fólks í smitrakningu. Það er gríðarlega mikilvægt að það takist ,“ segir Helga en bendir á að ábyrgðin sé alltaf hjá þeim sem reka kerfið. „Þarna er skýr vilji um að fara eftir lögum og það er ekki hægt að gera annað en að fagna því.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert