Tæplega 9 þúsund umsóknir á 26 tímum

Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar.
Unnur Sverrisdóttir forstjóri Vinnumálastofnunar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Tæplega níu þúsund umsóknir hafa borist um hlutabætur á vef Vinnumálastofnunar frá því að opnað var fyrir umsóknir klukkan 10:15 í gærmorgun. 

Unnur Sverrisdóttir, forstjóri Vinnumálastofnunar, segir þetta hafi gengið mjög vel og framar björtustu vonum. Umsóknir hafa hrúgast inn og atvinnurekendur staðfest þær án nokkurra vandkvæða. „Þetta gengur allt eftir bókinni.“ segir Unnur í samtali við mbl.is. 

Engir sýnilegir hnökrar hafa komið upp enn sem komið er að sögn Unnar.

Eitt af því sem mbl.is hefur fengið fyrirspurn um er hvers vegna ekki er hægt að nýta skattaafslátt í úrræðinu. Að sögn Unnar var tekin ákvörðun um að gera það ekki meðal annars vegna þess að það hefði getað flækt umsóknarferlið töluvert mikið. 

„Við hugsuðum þetta þannig að það verður alltaf 25% greiðsla eftir hjá atvinnurekandanum þannig að þar nýtist skattkortið áfram 100%. Fólk eignast þá jafnvel inneign hjá skattinum í stað þess að geta lent í skuld,“ segir Unnur og vísar þar til þess að skatturinn er ekki undir samtímaeftirliti. Þannig að í sumum tilvikum getur skattkortið verið í notkun á fleiri en einum stað og ef það gleymist að breyta því getur viðkomandi starfsmaður orðið fyrir því að standa í skuld við skattinn. 

Við ákváðum því að skattkortið yrði alfarið hjá launagreiðanda sem er hvort eð er að greiða laun og þá er skárra að fólk lendi í inneign í stað þess að lenda í skuld. Þetta nýtist fólki til fulls að lokum því ráðningarsambandið er enn til staðar segir Unnur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert