Úr 30 stiga hita í 3 metra snjó

Jónas Jóhannsson íhugar í pottinum og virðir fyrir sér skaflana …
Jónas Jóhannsson íhugar í pottinum og virðir fyrir sér skaflana á tíunda degi í sóttkví. Ljósmynd/Tobba Þorfinns

Hjónin Jónas Jóhannsson og Þorbjörg Þorfinnsdóttir á Þórshöfn á Langanesi fengu heldur betur að finna fyrir andstæðum í veðurfari er þau komu heim til Þórshafnar eftir frí í 30 stiga hita á Kanaríeyjum fyrir nokkrum dögum. 

Leiðin heim til Þórshafnar var löng og ströng en gekk vel þrátt fyrir mikla ófærð á leiðinni og óveður á Hólaheiði. Mikið fannfergi er á Þórshöfn og var húsið þeirra grafið undir snjó við heimkomuna. 

„Þegar við komum heim um miðja nótt uppgötvuðum við okkur til mikillar gleði að vinir okkar voru búnir að grafa göng fyrir okkur að húsinu. Við vorum ofboðslega þakklát og fegin. Við hefðum líklega ekki haft það af að grafa okkur inn í húsið eftir þessa erfiðu ferð,“ segir Þorbjörg, eða Tobba eins og hún er alltaf kölluð. „Við hefðum frekar sofið í bílnum.“

Göngin aðeins farin að síga og þakið á þeim hefur …
Göngin aðeins farin að síga og þakið á þeim hefur fallið niður. Ljósmynd/Tobba Þorfinns

Hjónin máttu engan hitta því þau þurftu að fara beint í sóttkví eins og aðrir sem koma að utan. Eftir nokkra daga í sóttkví dreif Jónas í því að grafa önnur göng og nú að heita pottinum en snjólagið yfir honum var á þriðja metra.

„Við óttuðumst að potturinn væri ónýtur undir þessu hlassi, en nei, nei, hann malar eins og köttur og heldur sér heitum,“ segir Tobba. Hún segir að lífið gangi að mestu leyti sinn vanagang hjá þeim þrátt fyrir snjóalög og sóttkví, þau hafi nóg að gera og að tíminn líði hratt. Og að hvergi sé betra að slaka á en í heita pottinum þó útsýnið úr honum sé af skornum skammti.

Snjórinn náði upp fyrir þak en vinir þeirra hjóna höfðu …
Snjórinn náði upp fyrir þak en vinir þeirra hjóna höfðu grafið göng að húsinu svo þau kæmust inn. Ljósmynd/Tobba Þorfinns
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert