Íslenska flatbakan skorar á Gastro Truck

Valgeir Gunnlaugsson gaf starfsfólki Landspítalans 40 pizzur í hádeginu í …
Valgeir Gunnlaugsson gaf starfsfólki Landspítalans 40 pizzur í hádeginu í dag og hvetur fleiri fyrirtæki til þess að gera það sama. Ljósmynd/Instagram

Skyndibitastaðurinn Wok On hefur undanfarna daga gefið einni og einni deild á Landspítalanum hádegismat til þess að hjálpa starfsfólkinu í gegnum mikla álagstíma. Wok On skoraði á Íslensku flatbökuna að fylgja þessu fordæmi og pizzastaðurinn gekk í málið: Í dag fór eigandinn með samtals 40 pizzur og gaf starfsfólki Covid-19-teymisins á Landspítalanum að borða.

„Þetta fólk er eins og sagt er í framlínunni hjá okkur og álagið er mikið hjá þeim. Það er sjálfsagt núna, þó að mæði líka á okkur á veitingastöðunum, að sýna þakklæti og hjálpa til eins og maður hefur tök á,“ segir Valgeir Gunnlaugsson, eigandi Íslensku flatbökunnar, í samtali við mbl.is.

Afhendingin gekk smurt fyrir sig og Valgeir skilaði pizzunum í öryggismóttöku á spítalanum. Svo hafa starfsmennirnir gert sér glaðan dag, alltént að því marki sem dagar þeirra verða glaðir nú um stundir.

Valgeir réttir kyndilinn áfram og skorar á Gastro Truck að fara með mat til starfsfólksins. Nú er að sjá hvernig Gastro Truck bregst við, en Valgeir vonast til þess að keðja myndist og fyrirtæki geti þannig lagt sitt af mörkum til framlínunnar. Áskorunin er ágæt leið til þess að knýja á um slíkt.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert