Frysta laun þingmanna og æðstu embættismanna

Tillagan var samþykkt í ríkisstjórn í morgun.
Tillagan var samþykkt í ríkisstjórn í morgun. mbl.is/Hari

Laun alþingismanna, ráðherra, ráðuneytisstjóra og æðstu embættismanna verða fryst til 1. janúar 2021, verði breytingartillaga fjármála- og efnahagsráðherra, til efnahags- og viðskiptanefndar við bandorm um aðgerðir til að mæta efnahagslegum áhrifum í kjölfar heimsfaraldurs kórónaveiru, samþykkt á Alþingi.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Stjórnarráðinu, en þetta er annað árið í röð sem lögbundinni hækkun þjóðkjörinna fulltrúa, ráðherra og ráðuneytisstjóra er seinkað, en hækkun sem átti að koma til framkvæmda 1. júlí 2019 var slegið á frest til 1. janúar 2020 í tengslum við gerð lífskjarasamninga. 

Tillagan var samþykkt í ríkisstjórn í morgun og rædd á fundi formanna stjórnmálaflokka á Alþingi í dag. Í henni er kveðið á um að hækkun launa alþingismanna, ráðherra og ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara, sem hefði átt að koma til framkvæmda 1. júlí 2020 verði frestað til 1. janúar 2021.

Með lögum nr. 79/2019 var launafyrirkomulag þjóðkjörinna fulltrúa, dómara og hópa embættismanna lögfest. Samkvæmt lögunum eru laun forseta Íslands, alþingismanna og ráðherra, ráðuneytisstjóra, dómara, saksóknara, lögreglustjóra, seðlabankastjóra og ríkissáttasemjara ákveðin sem fjárhæð í krónum.

Áskilið er að laun framangreindra taki breytingum 1. júlí ár hvert í samræmi við breytingu á meðaltali reglulegra launa starfsmanna ríkisins fyrir næstliðið almanaksár, skv. útreikningum Hagstofu Íslands.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert