Instagram-söfnun sem fór á flug

Ingileif Friðriksdóttir hefur safnað tæpum 600.000 krónum á Instagram síðustu …
Ingileif Friðriksdóttir hefur safnað tæpum 600.000 krónum á Instagram síðustu daga. Féð rennur óskipt til Landspítalans og því verður varið í uppbyggingu Birkiborgar, nýrrar göngudeildar Covid-19 sjúklinga. Ljósmynd/Aðsend

Á þriðjudagskvöld varpaði Ingileif Friðriksdóttir fjölmiðlakona þeirri hugmynd fram í hálfkæringi á Instagram að efna til söfnunar fyrir Landspítalann nú þegar álagið margfaldast vegna kórónuveirunnar. Ingileif grunaði ekki að viðbrögðin yrðu eins mikil og raunin varð: Nú, föstudag, hafa um 600.000 krónur hrúgast upp á söfnunarreikningi sem hún stofnaði af tilefninu.

„Ég ætlaði í fyrstu kannski að hafa þetta uppi í sólarhring og koma því svo til spítalans en svo fór þetta bara á flug, og hefur bara haldið áfram,“ segir Ingileif í samtali við mbl.is. Landspítalinn hefur sjálfur opnað fyrir styrki til sín. Ingileif sá það og henni datt í hug að eyðublöðin gætu fælt fólk frá því og ákvað því að safna þessu á einn reikning hjá sér, sem fólk leggur einfaldlega inn á í heimabanka eða með AUR eða KASS, og taka svo þann pening og koma honum til sjúkrahússins.

Í samráði við stjórnendur á spítalanum var komist að niðurstöðu um að besta raun gæfi að láta féð renna beint í uppbyggingu nýrrar göngudeildar Landspítalans í Fossvogi fyrir covid-sjúklinga, sem ber nafnið Birkiborg.

Söfnunin fór einkum á flug eftir að listakonan og vinkona Ingileifar, Júlíanna Ósk Hafberg (@julohaf), bauðst til að gefa endurprentanir af myndum sínum til þeirra sem styrktu söfnunina um 10.000 krónur eða meira og prentsmiðjan Pixel hyggst prenta þessar endurprentanir kostnaðarlaust til styrktar átakinu. Að lokum hefur Íris Björk Jónsdóttir hjá Vera design styrkt söfnunina um tíu armbönd frá Veru, sem verða gefin þeim sem styrkja um 20.000 krónur eða meira, þannig að ljóst er einstaklingar sem fyrirtæki leggja hönd á plóg. 

View this post on Instagram

@ingileiff setti af stað svo fallega fjáröflun í gær til styrktar LSH og heilbriðgisstofnunum sem eru að berjast við Covid-19 veiruna‚ og ákvað ég því að leggja mitt að mörkum. Allir sem leggja til 10.000kr eða meira á reikninginn sem @ingileiff hefur stofnað fá eftirprent af nýjasta málverki mínu í stærð A3. Öll framlög renna óskipt inná styrktarsjóðinn sem hægt er að leggja inná reikningsnúmer: 0515-14-004330 og kennitala: 180593-3309. Hægt er að finna allar nánari upplýsingar hjá @ingileiff 💕 . . ‘Daugther Earth‘ er sú fyrsta í röð málverka sem fjalla um þá brýnu þörf að skipta frá þeirri karllægu orku og hugarfari sem ráðið hefur ríkjum í hinu kapitalíska samfélagi sem við lifum í og hefur komið mannkyninu og jörðinni á þann stað sem hún er í dag, og yfir í meira kvenlæga orku þar sem innsæi, heilun, samúð og þolinmæði eru meðal helstu eiginleika. Hlúa að náttúrinni, hvort öðru og okkur sjálfum, allt í sameiningu. . Ég var búin að vera að bíða með að hleypa þessu málverki út í heiminn, en gæti ekki hugsað mér betri tíma eða betra tilefni til þess heldur en núna. Farið varlega og passið uppá ykkur sjálf og hvort annað 💕 . . Daughter Earth 2019/2020 Olía á striga 80x120cm

A post shared by Júlíanna Ósk Hafberg (@julohaf) on Mar 25, 2020 at 6:31am PDT

Ingileif er hæstánægð með góðan árangur og segir hann til marks um hve allir vilja leggja sitt af mörkum þessa dagana. „Það gleður hjartað. Nú sést svart á hvítu hvað það er mikil eining um að standa öll saman, jafnvel þó það sé bara í gegnum Instagram,“ segir Ingileif, en öll söfnunin hefur farið þar fram. Sjálf er Ingileif í sjálfskipaðri sóttkví á heimili sínu ásamt eiginkonu sinni Maríu Rut Kristinsdóttur og sonum þeirra Rökkva og Þorgeiri. María er aðstoðarmaður Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur, formanns Viðreisnar. Þorgerður er í sóttkví, þannig að Maríu er hollast að vinna heima, eins og nánast öllum á landinu þessa stundina.

Hægt er að taka þátt í söfnuninni með því að senda pening í símanúmerið 693-0998 eða leggja inn á reikning: 0515-14-004330, kt. 180593-3309.


mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman