Landsréttur snýr við dómi í Pressumáli

Björn Ingi Hrafnsson var útgefandi, stjórnarformaður og einn stærsti eigandi …
Björn Ingi Hrafnsson var útgefandi, stjórnarformaður og einn stærsti eigandi Pressunnar. mbl.is/Árni Sæberg

Landsréttur hefur snúið við dómi Héraðsdóms Reykjavíkur og dæmt Frjálsa fjölmiðlun ehf. til að greiða Fjárfestingafélaginu Dalnum ehf. 15 milljónir króna. Tengist málið kaupum Frjálsrar fjölmiðlunar á kröfu Fjárfestafélagsins Dalsins á hendur Pressunni ehf. að upphæð 45 milljónir króna, en það var hluti af kaupum Frjálsrar fjölmiðlunar á miðlum Pressunnar, en Dalurinn hafði áður ætlað að taka þátt í hlutafjárútboði og ætlað sér að verða stór hluthafi í Pressunni.

Héraðsdómur hafði áður sagt að verulegur ágreiningur væri um málsatvik og hvort að Pressan hafi í raun skulda Dalnum fjármuni þegar samið var um kaup á kröfunni. Taldi héraðsdómur að Dalurinn yrði að bera hallann af skorti á sönnun fyrir þessari kröfu sem félagið teldi sig hafa framselt til Frjálsrar fjölmiðlunar.

Landsréttur komst hins vegar að annarri niðurstöðu, en ný gögn voru lögð fram við meðferð málsins í Landsrétti. Kemur fram í dóminum að því sé hafnað að Dalurinn hafi ekki átt kröfu á hendur Pressunni og því beri Frjálsri fjölmiðlun að greiða milljónirnar 15.

Sigurður G. Guðjónsson lögmaður er eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar. Félagið hefur …
Sigurður G. Guðjónsson lögmaður er eigandi Frjálsrar fjölmiðlunar. Félagið hefur nú selt miðla sína til Torgs, en dómsmálið núna snýst um kaup á miðlunum árið 2017. mbl.is/Kristinn

Forsvarsmaður Frjálsrar fjölmiðlunar er lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson, en nýlega seldi félagið útgáfur sínar til Torgs ehf., útgáfufélags Fréttablaðsins. Þá var félagið einnig nýlega dæmt til að greiða þrotabúi DV 24 milljónir.

Alvogenhópur upphaflega á bak við Dalinn

Dalurinn er í eigu Halldórs Kristmannssonar, framkvæmdastjóra markaðssviðs Alvogen og útgefanda Mannlífs, en Dalurinn er eigandi Birtings, sem í dag gefur út Mannlíf. Áður voru eigendur Dalsins fleiri, en auk Halldórs átti Árni Harðarson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen og yfirlögfræðingur félagsins, Hilmar Þór Kristinsson fjárfestir, Jóhann G. Jóhannsson, framkvæmdastjóri hjá Alvogen og Róbert Wessmann, forstjóri og stjórnarformaður Alvogen, hluti í því.

Í málinu sem dæmt var í dag er tekist á um aðkomu Dalsins að mögulegri hlutafjáraukningu í Pressunni, framlagi þess til Pressunnar og þeirra krafna sem Dalurinn átti á Pressuna þegar eignir Pressunnar voru að lokum seldar til Frjálsrar fjölmiðlunar.

Halldór Kristmannsson er útgefandi Mannlífs og eigandi Dalsins.
Halldór Kristmannsson er útgefandi Mannlífs og eigandi Dalsins. mbl.is

Pressan kaupir Birting

Upphaflega gerði Pressan samning í nóvember 2016 um að kaupa alla hluti í Birtingi útgáfufélagi. Í dóminum kemur fram að meðal gagna í málinu sé óundirritaður viðauki frá febrúar árið 2017 þar sem félagið Aztiq fjárfestingar ehf., hafi í nafni Dalsins greitt 30 milljónir af kaupverðinu fyrir hönd Pressunnar, en Róbert Wessmann fer með yfirráð yfir Aztiq félaginu. Þennan sama mánuð var hlutafjáraukning í Pressunni, annars vegar um 8,3 milljónir með umbreytingu krafna Björns Inga Hrafnssonar, útgefanda og stjórnarformanns Pressunnar, og hins vegar um 75 milljónir sem var greitt með peningum, en samhliða keypti Dalurinn hluti í Pressunni.

Í dóminum kemur fram að færslukvittun sýni fram á að Aztiq fjárfestingar hafi lagt 150 milljónir inn á reikning félagsins Framsals ehf. með skýringu að um kaup á 88% hlut í DV væri að ræða. Þá segir að stefnt hafi verið að allt að 300 milljóna hlutafjáraukningu hjá Pressunni, en 155 milljónir áttu að koma frá Dalnum.

Pressan rak á þessum tíma DV, Pressuna, Eyjuna, bleikt.is, 433.is, doctor.is, dv.is og átti hlut í ÍNN.

Birtingur fær 100 milljónir frá Aztiq

Í apríl 2017 leggur svo Aztiq 100 milljónir inn á reikning Birtings og er það skráð sem lán til Dalsins. Sama dag greiðir Birtingur 80 milljónir til tollstjóra vegna skulda Pressunnar, Vefpressunnar, ÍNN, DV og Birtings, en félögin voru öll hluti af Pressusamstæðunni. 20 milljónir fóru svo í að greiða staðgreiðslu opinberra gjalda og greiðslu virðisaukaskatts sömu félaga, að því er fram kemur í dóminum.

Kaupunum rift en tryggingabréf upp á 385 milljónir gefin út

Mánuði síðar, í maí 2017, er svo kaupum Pressunnar á öllum hlutum í Birtingi rift vegna slæmrar fjárhagsstöðu Pressunnar. Fram kemur í dóminum að ljóst hafi þá verið að félagið gat ekki staðið við greiðslu eftirstöðva kaupverðsins. Hins vegar er tekið fram í samkomulaginu um riftunina að 30 milljóna greiðslan sem Aztiq greiddi fyrir hönd Dalsins verði gerð upp með sérstöku samkomulag. Sama dag er gefið út tryggingarbréf upp á 200 milljónir af Pressunni þar sem útgáfa DV og allt sem henni tilheyri, er sett að veði fyrir öllum skuldum Pressunnar.  Sambærilegt tryggingarbréf er gefið út af Vefpressunni vegna láns Dalsins til Pressunnar, en tryggingarbréfið er upp á 185 milljónir og með veði í Eyjunni og öllu sem tilheyrir þeirri útgáfu.

Landsréttur snéri við niðurstöðu héraðsdóms.
Landsréttur snéri við niðurstöðu héraðsdóms. Ljósmynd/Hanna Andrésdóttir

Frjáls fjölmiðlun kaupir svo miðla Pressunnar

Líður nú og bíður, en 5. september 2017 kaupir Frjáls fjölmiðlun svo allar fyrrnefndar útgáfur af Pressunni fyrir 276 milljónir. Er það greitt með yfirtöku á 80 milljóna skuldabréfi, 36 milljóna skuld við Íslandsbanka og svo með 160 milljónum í reiðufé. Þó er sá fyrirvari á að tryggingarbréfin verði afmáð af lausafjárbók Pressunnar.

Samskipti Árna og Sigurðar G.

Þann 6. september eiga sér stað nokkur tölvupóstsamskipti milli þeirra Sigurðar, fyrir hönd Frjálsrar fjölmiðlunar, og Árna, fyrir hönd Dalsins. Sendir Sigurður bréf á Árna þar sem hann staðfestir að Frjáls fjölmiðlun myndi „yfirtaka skuld við [svo] að fjárhæð 45 milljónir og greiða 25 milljónir í peningum í þremur greiðslum á næstu 36 mánuðum 20 milljónir í auglýsinga inneign sem ekki má ráðstafa til óskylda aðila en taka verður út á næstu 36 mánuðum. Gengið verður frá þessu gegn afhendingu tryggingabréfanna tveggja frá 10. maí 2017 svo aflýsa megi þeim úr lausafjárbók.“

Stuttu síðar sendir Árni svar þar sem hann krafðist þess að skuld Pressunnar væri greidd í peningum, auk þess sem tryggja þyrfti að Pressan yrði ekki tæmd af eignum áður en Dalurinn fengi greitt, „eins og reynt var hérna“ segir hann í bréfinu. Þá krafðist Árni greiðslu á skuld DV upp á 35 milljónir með auglýsingaúttektum og persónulegri ábyrgð Björns Inga á láni að upphæð 50 milljónir.

Árni Harðarson, lögmaður og stjórnarmaður í Alvogen, átti fyrir kaup …
Árni Harðarson, lögmaður og stjórnarmaður í Alvogen, átti fyrir kaup Frjálsrar fjölmiðlunar á eignum Pressunnar í miklum tölvupóstsamskiptum við Sigurð G. Guðjónsson, eiganda Frjálsrar fjölmiðlunar. mbl.is/Rósa Braga

Sigurður svarar sama dag að tryggingarbréfið sé haldlaust „enda engin krafa að baki því í raun.“ Árni er þessu ekki sammála og í dóminum kemur fram að hann telji kröfuna gilda og gögn þar á bak við. „Þó BIH haldi öðru fram,“ og vísar þar til Björns Inga Hrafnssonar.

Í næsta svari Sigurðar kveður hann „verið að fiska í afar gruggugu vatni“ með því að neita að aflýsa tryggingarbréfunum, en til að leysa hluti og forða frekara tjóni er fallist á 45m kröfu greidda með peningum og auglýsingum.

Kaupin kláruð með 45 milljóna skuld Frjálsrar fjölmiðlunar við Dalinn

Er samningur um kaup Frjálsrar fjölmiðlunar á eignum Pressunnar svo undirritaður 6. september. Þar er meðal annars kveðið á um að félagið kaupi kröfu Dalsins á hendur Pressunni og muni greiða 45 milljónir í tveimur 15 milljóna peningagreiðslum og 15 milljóna auglýsingainneign. Er tryggingabréfið jafnframt afmáð og tekur Frjáls fjölmiðlun yfir kröfu Dalsins á hendur DV upp á 39,4 milljónir og átti að greiða fyrir það með 20 milljóna auglýsingainneign. Eru samningarnir undirritaðir af Árna, Sigurði, Birni Inga og Arnari Ægissyni, öðrum eiganda Pressunnar og viðskiptafélaga Björns Inga.

Í desember 2017 er svo Pressan tekin til gjaldþrotaskipta, en þá höfðu sem fyrr segir eignir félagsins verið seldar út. Gerir Frjáls fjölmiðlun ekki kröfu í búið.

Greiðslan berst ekki og Dalurinn höfðar mál

Samkvæmt fyrrnefndum samningi átti Frjáls fjölmiðlun að greiða Dalnum 15 milljónir 1. september 2018, en greiðsla barst ekki. Var því höfðað dómsmálið sem hér er rætt.

Byggir Dalurinn kröfur sínar á því að Frjáls fjölmiðlun eigi að greiða 15 milljónir og því sé um skuldamál að ræða. Frjáls fjölmiðlun byggir hins vegar á því að vegna 155 milljón króna hlutafjárloforðsins hafi ekki verið um lán að ræða heldur hlutafé sem Dalurinn hafi greitt inn í Pressuna. Við samningsgerðina hafi því ekki verið nein raunveruleg krafa til staðar og tryggingarbréfin hafi verið gefin út vegna trygginga á skuldum sem í raun voru ekki til staðar. Taldi Frjáls fjölmiðlun að eyða hefði átt tryggingarbréfunum samhliða því að ekki hafi verið staðið við hlutafjárloforðið. Segir í kröfu félagsins að samningurinn sé því til kominn vegna svika og óheiðarlegt sé að bera hann fyrir sig.

Landsréttur: Krafa sannarlega til staðar

Í niðurstöðu dómsins er komist að þeirri niðurstöðu að 100 milljóna króna greiðslan til Birtings hafi verið upp í 155 milljóna króna hlutafjárloforðið til Pressunnar. Það hafi sannarlega verið notað til að greiða skuldir Pressunnar og tengdra félaga. Samtals hafi 43,8 milljónir verið ráðstafað upp í skuldir Pressunnar og 6,3 milljónir í skuldir Vefpressunnar og ÍNN.

Landsréttur hafnar því þannig að Dalurinn hafi ekki átt kröfu á hendur Pressunni og þá er því hafnað að engar skuldir hafi verið að baki tryggingarbréfunum. Er Frjálsri fjölmiðlun því gert að greiða 15 milljónir líkt og um var samið í tengslum við kaupin á miðlum Pressunnar.

Dómur Landsréttar í heild

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert