„Líf eru í húfi“

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri ræddi meðal annars viðmiðunarfjárhæðir sekta fyrir …
Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri ræddi meðal annars viðmiðunarfjárhæðir sekta fyrir brot á sóttvarnalögum og samkomubanni á fundi almannavarna í dag. Ljósmynd/Lögreglan

„Ég vil ítreka það að líf eru í húfi. Það liggur mikið við að reglur sóttvarnalæknis séu virtar,“ sagði Sigríður Björk Guðjóns­dótt­ir rík­is­lög­reglu­stjóri á upplýsingafundi almannavarna í dag þegar hún fjallaði um viðmiðunarfjárhæðir sekta varðandi þá sem brjóta lög í tengslum við boð og bönn vegna kórónuveirunnar.

Sigríður ræddi þær áskoranir sem blasa við lögreglunni á tímum kórónuveirunnar. Meðal ábendinga sem lögreglan hefur fengið eru brot á samkomubanni, sérstaklega fyrstu dagana eftir að bannið tók gildi um miðjan mars. En í mörgum tilvikum hefur það ekki átt við rök að styðjast,“ sagði Sigríður og bætti við að lögreglan vill gjarnan nýta krafta lögreglunnar í annað. 

Ríkissaksóknari hefur nýlokið við  fyrirmæli um viðmiðunarfjárhæðir sekta fyrir brot á sóttvarnalögum og samkomubanni. Brot gegn skyldu til að fara eða vera í sótt­kví þýðir sekt upp á 50 til 250 þúsund krón­ur. Brot á regl­um um ein­angr­un geta þýtt sekt upp á 150 til 500 þúsund krón­ur. Brot á regl­um um lok­un sam­komu­staða og starf­semi vegna sér­stakr­ar smit­hættu get­ur þýtt sekt á bil­inu 100 til 500 þúsund krón­ur.

Sigríður Björk þakkaði öllum starfsmönnum lögreglu og nefndi sérstaklega félaga á Norðurlandi og í Vestmannaeyjum vegna margra vandamála þar í tengslum við veiruna. „Önnur umdæmi eru kannski ekki eins útsett en eru tilbúin og hafa verið að vinna að sínum viðbragðsáætlunum og búa sig undir að smitum geti fjölgað. “

Bakvarðasveit lögreglunnar komið á fót

Meðal aðgerða sem ríkislögreglustjóri mun grípa til er að stofna bakvarðasveit lögreglunnar, en hún verður sett af stað í dag. „Vonandi þurfum ekki á þeim að halda en það er líka mikilvægt fyrir fólk að vita að við erum við öllu búin. Við munum gera það sem þarf til að tryggja öryggi fólks í þessum óvenjulegu aðstæðum,“ sagði Sigríður. 

Fyrrverandi lögreglumenn sem starfa annars staðar í kerfinu og fólk með lögreglumenntun sem starfar annars staðar í kerfinu verður gjaldgengt í sveitina. „Það eru margir að bjóða fram krafta sína og það er verið að koma strúktúr á þetta og nýta þá auðlind sem við höfum,“ sagði Sigríður. 

Lögreglan mun bregðast skjótt við tilkynningum um heimilisofbeldi

Önnur áskorun sem lögreglan fæst við þessa dagana er sú staðreynd að heimilisofbeldi eykst við aðstæður á borð við þær sem eru núna uppi og benti Sigríður á að fólk leiti til viðeigandi aðila vegna þess.

„Ef fólk er í bráðri hættu þarf að hringja strax í 112 og lögreglan mun bregðast skjótt við,“ sagði Sigríður, en lögreglan mun einnig bregðast við stöðunni varðandi heimilisofbeldi með framleiðslu á forvarnar- og fræðslumyndböndum sem verða birt á næstunni.

Sigríður varaði sömuleiðis við óprúttnum aðilum sem reyna að nýta sér viðkvæmt ástand sem nú ríkir sökum útbreiðslu veirunnar. „Glæpir finna sér alltaf nýjan farveg. Það eru afbrotamenn sem eru að reyna að hagnast á þessum heimsfaraldri.“ 

Hún nefndi dæmi um heimsíður þar sem verið er að selja lækningar gegn COVID-19 og ýmsan varning til að forðast smit, svo sem andlitsgrímur og hlífðarbúnað. Sigríður biður fólk um að kaupa einungis varning frá viðurkenndum söluaðila og treysta eingöngu upplýsingum sem koma frá opinberum aðilum og heilbrigðiskerfinu.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert