Mennskan kemur fram á erfiðum tímum

„Þjáningin er hvergi eins mikil og hér.“ Þannig lýst Bill de Blasio, borgarstjóri New York, ástandinu þar í borg, þar sem kórónuveiran breiðist einna hraðast út þessa dagana. Halla Tómasdóttir, forstjóri B team, sem er búsett í borginni ásamt eiginmanni og börnum segir það skrítið að búa á svæði sem skilgreint er sem hörmungasvæði. Halla trúir því að heimsbyggðin muni hafa betur gegn þessum heimsfaraldri með mennskuna að vopni.

„Ástandið er orðið mjög alvarlegt hérna og skrítið að vera búsettur á svæði sem búið er að skilgreina sem hörmungasvæði,“ segir Halla þegar blaðamaður nær tali af henni milli fjarfunda. Halla hefur unnið heima síðustu þrjár vikur en skrifstofubygging B team var með þeim fyrstu til að loka í borginni. 

Auðar götur eru sjaldséð sjón í New York en útbreiðsla …
Auðar götur eru sjaldséð sjón í New York en útbreiðsla kórónuveirunnar hefur breytt stórborginni í draugaborg. AFP

Halla tók við forstjórastóli B team fyrir tveimur árum en um er að ræða alþjóðleg samtök leiðtoga sem vinna að sjálfbærni, jafnrétti og bættum viðskipta- og stjórnunarháttum. 

Rætur Höllu til New York eru sterkar en þetta er í þriðja sinn sem hún flyst búferlum til borgarinnar, nú með eiginmanni og tveimur börnum, eða réttara sagt unglingum, 16 og 18 ára. „Við þekkjum borgina nokkuð vel og búum hér í miðjunni þannig að það er aldrei hljóð, alltaf fullar götur af fólki, en núna er hún óþægilega hljóðlát og það heyrist kannski helst í sírenum og einstaka öskur í heimilislausu fólki, sem á margt við andlega erfiðleika að stríða.“

Halla Tómasdóttir.
Halla Tómasdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðfest smit kórónuveirunnar í heim­in­um eru flest í Banda­ríkj­un­um en sam­kvæmt Johns Hopk­ins há­skól­an­um eru þau 85.991 tals­ins. Tæplega helmingur smitanna hefur greinst í New York og af rúmlega 1.300 dauðsföllum má rekja 385 til ríkisins. 

Nálægðin ekki styrkur í þessum aðstæðum

Halla segir það afar einkennilega upplifun að vera í borg sem alla jafna iðar af lífi en er nú hljóðlát og nánast tóm. „Nema sírenurnar hljóma oftar finnst manni, eða maður heyrir þær betur.“

Viðbrögð Don­alds Trump Banda­ríkja­for­seta vegna kór­ónu­veirufar­ald­urs­ins hafa sætt gagn­rýni und­an­farna daga og vik­ur og hafa margir beint sjónum sínum að New York og af hverju útbreiðslan er einna mest þar. Halla hefur sínar kenningar. 

„Annars vegar er þetta mjög alþjóðleg borg og það er líklegt hér eins og annars staðar að veiran hafi komið löngu áður en hún byrjar að mælast. Það voru allir held ég svolítið sofandi á verðinum gagnvart þessu. Svo er hitt að hér býr fólk í mikilli nálægð, sem er styrkur borgarinnar en verður veikleiki í þessum aðstæðum. Það er mjög erfitt að halda þessari líkamlegu fjarlægð.“

Útgöngubann tók gildi í borginni í síðustu viku en er með þeim hætti að tilskipun um heimasóttkví hefur verið gefin út og því beint til íbúa að fara ekki úr húsi nema í ýtrustu neyð. 

Crossfit, spilakvöld og bakstur

Halla og fjölskylda eru búsett á Manhattan, í miðju borgarinnar eins og hún segir, og segir hún það óneitanlega reyna á fjölskyldulífið að vera hálfinnilokuð. „Við erum öll inni og saman öllum stundum og það reynir auðvitað á. Það er mikið að gera í vinnunni hjá mér en það sem við reynum að gera er að finna leiðir til að gleðjast til að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi,“ segir Halla. 

Fjölskyldan er því búin að koma sér upp nokkrum góðum hefðum, eins og daglegum crossfit-æfingum, sem Halla hefur reyndar ekki tíma fyrir sjálf, auk vikulegra spila- og bíókvölda. „Svo reynum við að baka annan hvern dag og gerum mikið úr kvöldmatnum og reynum að tala um uppbyggilega hluti. Á heildina séð eru allir að mestu glaðir hér en auðvitað er þetta mikil félagsleg einangrun fyrir alla. “

Göngutúr með heimilishundinn er ein fárra afsakana sem Halla og …
Göngutúr með heimilishundinn er ein fárra afsakana sem Halla og fjölskylda geta nýtt sér til að fara út fyrir hússins dyr. Ljósmynd/Halla Tómasdóttir

Sjálfri hefur Höllu þótt áhugavert að fylgjast með viðbrögðum bandarískra stjórnvalda við kórónuveirunni, sem skilgreind er sem heimsfaraldur. „Ég hef alltaf verið áhugamanneskja um forystu og það hefur verið áhugavert að fylgjast með þessu. Þetta á auðvitað ekki að vera pólitískt mál, þetta er eitthvað sem steðjar jafnt að okkur sama hver pólitík okkar er.“

Halla segir það ekki fara milli mála að nálgun ríkisstjóra New York, Andrew Cuomo, og Trump Bandaríkjaforseta er gjörólík og persónulegar er Halla hlynntari nálgun Cuomo. „Það sem hefur truflað með forsetann hér er að værukærðin hefur verið meiri og óttinn og panikkið aukist hjá mörgum. Lengi vel gerði hann lítið úr þessu og var í einhvers konar afneitun. Það er mjög alvarlegt því það hefði verið hægt að bregðast betur við.“

„Við þekkjum borgina nokkuð vel og búum hér í miðjunni …
„Við þekkjum borgina nokkuð vel og búum hér í miðjunni þannig að það er aldrei hljóð, alltaf fullar götur af fólki, en núna er hún óþægilega hljóðlát,“ segir Halla Tómasdóttir, sem er búsett á Manhattan í New York ásamt fjölskyldu sinni. AFP

Halla sér ýmislegt alvarlegt í framgöngu forsetans sem forystumannns þjóðarinnar. „Fyrst kannski þessi afneitun en í öðru lagi finnst mér hann hafa mikla tilhneigingu til að ýkja, ef ekki ljúga, á sínum upplýsingafundum, til dæmis með því að gefa fólki falskar vonir um lyf sem hefur meðal annars leitt til þess að hér hafa einstaklingar nýlega látið lífið því þeir voru að reyna að læknast með efni sem hann sagði virka rosalega vel án þess að vísindamenn væru tilbúnir að taka undir þær yfirlýsingar hans.“

Hún bendir sömuleiðis á að Trump hefur verið afar viðkvæmur fyrir spurningum einstakra blaðamanna og nefnir sem dæmi þegar blaðamaður NBC spurði forsetann hvað hann vildi segja við Bandaríkjamenn sem væru að horfa á hann þessa stundina og væru hræddir. „Ég segi að þú sért hræðileg­ur fréttamaður,“ var svar Trump. 

Stanslaust sjálfshól Trump alvarlegt 

„Hann hefur lengi talað um falska fjölmiðlun en þessi óeðlilegu og yfirgengilegu viðbrögð við eðlilegum spurningum blaðamanna á tímum þar sem fólk þarf hófstillta framgöngu og réttar upplýsingar er mjög sérstök,“ segir Halla. Alvarlegast finnst henni þó stanslaust sjálfshól forsetans. „Hann er alltaf að hæla sjálfum sér á öllum daglegum blaðamannafundum. Hann var t.d. spurður á blaðamannafundi hvaða einkunn hann myndi gefa sjálfum sér á skalanum einn til tíu um viðbrögð sín við þessu og hann gaf sér hikstalaust tíu, ég þekki ekki marga sem eru sammála því.“

Halla gerir jafnframt athugasemdir við forgangsröðun forsetans. „Það virðist á heildina að efnahagsleg og viðskiptaleg áhrif [vegna útbreiðslu veirunnar] eru gríðarleg en þú verður að setja lífin fyrst og lífsviðurværið svo að mínu mati þegar þú ert leiðtogi en hann nálgast alla hluti með efnahagsmálin fyrst og lífin svo,“ segir Halla og segir það enga spurningu að daglegir blaðamannafundir Trump þessa dagana séu ekkert nema kosningafundir, en Trump sækist eftir endurkjöri í forsetakosningunum í nóvember. Það sætir kannski ekki furðu að Halla hafi miklar skoðanir á gjörðum forsetans, en sjálf tók hún þátt í forsetakosningum hér á landi fyrir fjórum árum líkt og flestum er eflaust kunnugt um. 

„Efnahagsleg staða Bandaríkjanna hefur verið það sem fólk hefur talið að verði til þess að það verði erfitt að fella hann. En ég held að hans geta til að vera í forystu og efnahagslegu afleiðingarnar sem augljóslega verða miklar muni kosta hann embættið, þó að vinsældir hans séu fram úr því sem ég myndi trúa.“

Óvæntur forsetaframbjóðandi demókrata?

Þá segir Halla að mótframbjóðandi Trump muni einnig hafa sitt að segja. Joe Biden er líklegur til að hreppa útnefningu Demókrataflokksins eins og staðan er núna en Halla telur að vaskleg framganga Cuomo í baráttunni gegn kórónuveirunni geti veitt honum óvænt brautargengi, kjósi hann að bjóða fram krafta sína. 

„Hann er að halda á málum með þeim hætti að margir horfi nú til hans og hvort hann sé mögulega óvænt forsetaefni demókrata. Pabbi hans var á sínum tíma virtur ríkisstjóri en hann sjálfur hefur ekkert endilega verið vinsæll hingað til en hann gengur fram með þeim hætti núna að fólk treystir honum.“

Gæti Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, blandað sér í baráttuna …
Gæti Andrew Cuomo, ríkisstjóri New York, blandað sér í baráttuna um forsetaembættið í nóvember? AFP

Cuomo heldur daglega blaðamannafundi líkt og Trump þessa dagana. „Þeir eru styttri, skýrari, skilvirkari og afskaplega mennskir. Hann segir hluti eins og: „Þið eigið að stunda líkamlega fjarlægð en vera andlega tengd“, sem er áhugaverð nálgun hjá leiðtoga, það er ekkert svona að komast að hjá forsetanum,“ segir Halla. 

„Hann nær til fólks og leyfir sér að segja að mennskan komi fram á erfiðum tímum,“ bætir Halla við en hún hefur sjálf gert mennskuna að umtalsefni á Facebook, en þar hefur hún verið í beinu streymi nokkrum sinnum frá því  faraldurinn braust út, fyrst og fremst til að láta vini og ættingja vita af sér en líka til að deila sínum hugsunum á þessum fordæmalausu tímum.  

Karakter leiðtoga og þjóða kemur í ljós á krísutímum

„Ég hef alltaf sagt að karakter bæði leiðtoga og þjóða komi fram á krísutímum og hans karakter er sannarlega að lenda vel hjá fólki. Hann nær að byggja upp traust, tala um mennskuna og gefa fólki von og einhvern veginn stendur fyrir allt sem mér finnst ekki koma frá Hvíta húsinu núna,“ segir Halla. 

Hún skilur að fólk sé haldið ótta í þessum aðstæðum. „En ég vil meina, og Cuomo hefur komið inn á þetta, að á erfiðum tímum getum við leyst úr læðingi mennskuna. Það er svo margt sem þessi veira getur kennt okkur. Það er erfitt að segja það og það eru ekki allir tilbúnir að heyra það en heilsan er mikilvægari en veraldlegir hlutir þegar á reynir. “

Halla segir að með mennskuna í fyrirrúmi mun heimsbyggðin komast saman í gegnum þennan heimsfaraldur sem kórónuveiran er. „Ég held að stærsta gjöfin eða lærdómurinn í þessu er að við getum staldrað við og notað þessa plágupásu eða „pandemic pause“ til þess að spyrja okkur spurninga um svo margt sem var ekki heldur alveg frábært áður en þetta kom og hvort að við getum með sameiginlegu átaki og með áherslu á mennskuna gert eitthvert gagn í samfélaginu, meðal annars með því að spyrja okkur spurninga um úreltar venjur og viðtekin viðhorf sem kannski hafa verið við lýði. Mér finnst skemmtilegt að sjá hvernig ríkisstjórinn tvinnar það inn í mjög harða upplýsingafundi.“

Halla fer örsjaldan út úr húsi þessa dagana en íbúar …
Halla fer örsjaldan út úr húsi þessa dagana en íbúar borgarinnar hafa verið beðnir að fara í sjálfskipaða heimasóttkví. Ljósmynd/Halla Tómasdóttir

Stærsta áskorun okkar allra

Halla hefur reynt að finna ýmsar leiðir til að takast á við þær aðstæður sem uppi eru og hefur beint streymi á Facebook reynst henni vel í þeim efnum. „Maður er að reyna að finna leiðir til að tengja og ég byrjaði á þessum útsendingum heim af því að auðvitað hafa vinir og fjölskylda áhyggjur af manni þegar þeir lesa neikvæðar fréttir héðan og mér finnst almennt andlegt ástand fólks erfitt á þessum tímum. Ég spurði því sjálfa mig hvort það væri eitthvað gagn sem ég gæti gert og hugsaði að ég gæti kannski talað til fólks um hluti sem við gætum nýtt tímann til að velta fyrir okkur.“ 

Halla hefur nýtt Facebook live til að tala um hluti eins og hvernig er hægt að nota samfélagsmiðla, bæði kosti þeirra og galla, hugmyndir um forystu og þá hefur hún einnig gefið hugmyndir um lesefni og hlaðvörp og TED-fyrirlestra. „Fyrst og fremst svo að fólk geti fundið innblástur því við ráðum ekki við allt sem kemur inn í líf okkar og þetta er líklega stærsta áskorunin sem við höfum öll lent í saman, en við getum reynt að hafa áhrif á hvernig við bregðumst við á þessum tímum. Það er alveg ljóst að okkur mun líða betur ef við veljum að taka inn aðeins meira af uppbyggilegum hugsunum þrátt fyrir að við séum ekki að gera lítið úr þeim staðreyndum sem blasa við. Þetta eru erfiðir tímar.“

Áhugasamir geta fundið Höllu á Facebook en hún miðar við að vera live á miðvikudagskvöldum að íslenskum tíma og einnig um helgar ef tími gefst til. „Það hjálpar mér að tala um hluti og hugsa um eitthvað uppbyggilegt sem mig langar að segja við fólk á þessum tímum og tala um þá heimsmynd sem ég vona að geti komið út úr þessum erfiða tíma. Ef það hjálpar öðrum líka þá finnst mér það bara jákvætt.“

Hér má sjá upptöku af streyminu hjá henni frá því á miðvikudag:

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert