Mun dekkri sviðsmyndir

Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.
Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs. mbl.is/Árni Sæberg

Engin gögn eða líkön ná utan um efnahagsáfallið sem útbreiðsla kórónuveirunnar hefur valdið. Ekki er um hefðbundna niðursveiflu að ræða heldur algjört stopp meðal annars í mikilvægustu útflutningsgrein þjóðarinnar og allar spár líða fyrir þá miklu óvissu sem ríkir. Þetta segir Konráð S. Guðjónsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs.

Konráð hélt erindi á fundi Viðskiptaráðs í dag, þar sem hann gagnrýndi meðal annars sviðsmyndir sem Seðlabankinn kynnti á miðvikudag, en þar var gert ráð fyrir að hagvöxtur gæti orðið neikvæður um 5% á árinu, í dekkri sviðsmynd bankans, en neikvæður um 2% í mildari sviðsmynd.

„Þessar sviðsmyndir eru á mjög þröngu bili, sem fangar illa óvissuna,“ segir Konráð. Til samanburðar hefur Viðskiptaráð gert þrjár eigin sviðsmyndir, þar sem gert er ráð fyrir samdrætti í landsframleiðslu (neikvæðum hagvexti) á bilinu 6-15%. Konráð ítrekar þó að ekki séu forsendur til að gefa út almennilega spá. „Við erum aðallega að leika okkur að tölum og eigum eftir að leggjast betur yfir þetta“ segir hann og bætir við að stór óvissuþáttur sé hve hratt einkaneysla muni taka við sér að faraldri loknum.

Haldbærar tölur um samdrátt síðustu vikna liggja enn ekki fyrir, en Konráð segir að skýrari mynd fáist í næsta mánuði er tölur um kortaveltu verða gefnar út. Erlendir hagvísar gefi þó hugmynd um stöðuna, og nefnir hann að í Danmörku hafi samdráttur í neyslu verið um 20% frá því samkomubann var sett á þar í landi. „Síðan sjáum við tölur frá Vinnumálastofnun um 14.000 umsóknir um lækkað starfshlutfall sem gefa til kynna ástandið í samfélaginu.“

Breytingar á fjáraukalögum nauðsynlegar

Í umsögnum Viðskiptaráðs við fjáraukalög og aðgerðaáætun ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar kemur fram að ráðið telji stjórnvöld ganga of skammt þótt aðgerðirnar séu í grundvallaratriðum jákvæðar.

Konráð segist vonast til þess að tekið verði tillit til sjónarmiða ráðsins í meðferð þingsins. „Við höfum nefnt að það þurfi að skoða frekari fresti og í einhverjum tilfellum niðurfellingar á opinberum gjöldum til þess að fyrirtæki komist í gegnum þennan storm.“

Þá segir hann að gera þurfi breytingar á útgjaldahlið frumvarpsins og forgangsraða rétt. Þannig sé til dæmis ekki gert ráð fyrir auknum útgjöldum til Landspítala. „Maður trúir ekki öðru en að það muni þurfa að koma einhverjar breytingar hvað forgangsröðun varðar þegar rykið fer að setjast. Ég held að meðlimir fjárlaganefndar geri sér fyllilega grein fyrir því að það þurfi að breyta fjárlögum mun meira heldur en er gert núna.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert