Sækja og skila bílnum að þjónustu lokinni

Fyrirtækið býður upp á þjónustu að sækja bílana og skutla …
Fyrirtækið býður upp á þjónustu að sækja bílana og skutla aftur heim til fólks að þjónustu lokinni. Ljósmynd/Aðsend

Nesdekk dekkjaverkstæði í Garðabæ og Nesdekk í Reykjanesbæ bjóða viðskiptavinum sínum upp á að sækja bílinn til þeirra og skila aftur að lokinni þjónustu. Þetta hefur mælst vel fyrir og margir nýta sér þjónustuna, einkum eldri borgarar. Fyllsta hreinlætis er að sjálfsögðu gætt. 

„Við sáum strax að það var kominn samdráttur hjá okkur og því ákváðum við að bjóða upp á þessa þjónustu. Í Garðabæ eru margir eldri borgarar sem eru dyggir kúnnar. Hugmyndin var fyrst að þjónusta okkar nánasta umhverfi en svo ákváðum við að bjóða öllum upp á þetta,“ segir Edilon Hellertsson, eigandi Nesdekk í Garðabæ, eða Eddi eins og hann er alltaf kallaður en þess má geta að eigandi Nesdekk í Reykjanesbæ er Ragnar Bjarni Gröndal.

Starfsmennirnir nota að sjálfsögðu plasthanska, plasta alla helstu snertifleti og allt er þrifið og sprittað hátt og lágt. „Við erum mjög meðvituð um að huga vel að öllu hreinlæti. Við erum að megninu til fjölskyldufólk og þetta skiptir okkur sem og alla aðra miklu máli,“ segir hann. 

Starfsmönnum á verkstæðinu hefur verið skipt niður og vinna tveir og tveir saman. Alls vinna fjórir starfsmenn í Garðabæ og hefur þurft að skera niður starfshlutfall allra þeirra niður um helming.

Hjalti Snær Kristjánsson og Edilon Hellertsson að störfum í Nesdekk …
Hjalti Snær Kristjánsson og Edilon Hellertsson að störfum í Nesdekk í Garðabæ. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert