Sektir á bilinu 50-500 þúsund krónur

Alma D. Möller og Sigríður Björk Guðjónsdóttir á blaðamannafundinum.
Alma D. Möller og Sigríður Björk Guðjónsdóttir á blaðamannafundinum. Ljósmynd/Lögreglan

Vegna ákvörðunar heilbrigðisráðherra um opinberar sóttvarnaráðstafanir í samræmi við sóttvarnalög, sem eru viðbrögð við COVID-19 heimsfaraldrinum, hefur ríkissaksóknari sent öllum lögreglustjórum á landinu fyrirmæli vegna brota á reglum heilbrigðisráðherra sem fjalla um samkomubann, lokun samkomustaða og starfsemi, sem og um einangrun smitaðra og um sóttkví.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkissaksóknara.

Sektirnar nema á bilinu 50 til 500 þúsund krónur, eins og Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri greindi frá á blaðamannafundi almannavarna. Brot gegn skyldu til að fara eða vera í sóttkví þýðir sekt upp á 50 til 250 þúsund krónur. Brot á reglum um einangrun geta þýtt sekt upp á 150 til 500 þúsund krónur. Brot á reglum um lokun samkomustaða og starfsemi vegna sérstakrar smithættu getur þýtt sekt á bilinu 100 til 500 þúsund krónur.

Sigríður J. Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari.
Sigríður J. Friðjónsdóttir er ríkissaksóknari.

Við vinnslu fyrirmælanna hefur m.a. verið litið til þess hvernig ríkissaksóknaraembætti á Norðurlöndunum hafa brugðist við þeim aðstæðum sem skapast hafa vegna COVID-19. Að meginstefnu til byggja fyrirmæli ríkissaksóknara á því að sektum verði beitt vegna brota á sóttvarnalögum og reglum settum samkvæmt þeim. Sektarfjárhæðir fara eftir alvarleika hvers brots.

Sigríður J. Friðjónsdóttir ríkissaksóknari segir í tilkynningunni mjög mikilvægt að það sé alveg skýrt til hvaða úrræða lögregla getur gripið ef farið er gegn ákvörðunum heilbrigðisráðherra um sóttvarnaráðstafanir. Enn sem komið er hafi tilkynningar til lögreglu vegna brota á opinberum sóttvarnaráðstöfunum verið fáar, sem sé til marks um samstöðu í samfélaginu um þýðingu og mikilvægi þessara aðgerða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert