Skerði starfshlutfall til að geta greitt bætur?

Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.
Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Ljósmynd/BSRB

Hugmyndir um launaskerðingar og skerðingu á starfshlutfalli opinberra starfsmanna nú þegar reynir á almannaþjónustu sem aldrei fyrr vegna kórónuveirunnar eru óábyrgar og munu leiða af sér mun stærri vandamál er þeim er ætlað að leysa. Þetta segir í yfirlýsingu frá BSRB.

Í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til fjáraukalaga segir að „mikil vonbrigði“ séu að ekki sé rætt um að skerða starfshlutföll eða launakjör opinberra starfsmanna, annarra en þeirra sem standa í fremstu víglínu vegna heimsfaraldursins, nú þegar stórfelld lækkun starfshlutfalls og uppsagnir eru hafnar á almennum vinnumarkaði.

Að krefjast þess að opinberir starfsmenn sæti launaskerðingum kemur eins og köld gusa í andlit fólks sem leggur nótt við nýtan dag að bjarga mannslífum og gera líf samborgara sinna bærilegra, tryggja heilsu almennings og halda uppi nauðsynlegri þjónustu,“ segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB.

„Meirihluti þjóðarinnar hefur lagt áherslu á að samstaðan sé mikilvægasta vopnið í baráttunni gegn vánni sem fylgir COVID-19, bæði heilsufarslega og efnahagslega. Aðrir kjósa sér greinilega aðra leið.“

Segir hún að skilningsleysi Viðskiptaráðs á opinberum rekstri bendi til þess að viðskiptalífið á Íslandi átti sig ekki á að það sé einmitt grunnþjónustan sem geri því kleift að starfa. Spyr hún hvernig starfsfólk fyrirtækja eigi að geta sinnt störfum sínum ef ekki eru til staðar leikskólar, grunnskólar, hjúkrunarheimili, þjónusta við fólk með fötlun og þar fram eftir götunum. Löggæsla, sorphirða, fjarskiptainnviðir og vegakerfi séu undir sömu sökina seld; það sé nauðsynleg grunnþjónusta sem fyrirtæki landsins þurfi á að halda.

Þá sé aukin heldur óskiljanleg sú krafa Samtaka atvinnulífsins að semja ætti við starfsmenn ýmissa stofnana um lækkað starfshlutfall og hagræðingu í rekstri til þess eins að ríkið geti greitt út hlutabætur á móti. 

„Hafa verður í huga að það var skorið niður á öllum sviðum opinberrar þjónustu í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og niðurskurðurinn hélt áfram í uppsveiflunni í kjölfarið. Afleiðingarnar eru þær að víðast hvar í opinberri þjónustu er enn þann dag í dag byggt á lágmarks mönnun og víða er skortur á fólki,“ segir Sonja og bætir við að næstu vikur ráði úrslitum um hvernig samfélaginu muni takast að ráða fram úr ástandinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert