Boðað til skyndifundar í stjórn SÁÁ

Sjúkrahúsið Vogur. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir hefur starfað fyrir samtökin í …
Sjúkrahúsið Vogur. Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir hefur starfað fyrir samtökin í meira en tvo áratugi. mbl.is/Kristinn Magnússon

Stjórn SÁÁ var nú í hádeginu boðuð til skyndifundar. Mun hann fara fram kl. 17:00 á morgun. Ástæða fundarins er uppsögn yfirlæknis samtakanna og afsögn þriggja af níu úr framkvæmdastjórn SÁÁ.

Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ.
Arnþór Jónsson, formaður SÁÁ. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Líkt og Morgunblaðið hefur greint frá ákvað Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, að segja starfi sínu lausu vegna ágreinings við Arnþór Jónsson, formann samtakanna. Vill hún meina að formaðurinn hafi stigið inn á verksvið hennar þegar hann tók ákvörðun um að segja upp sálfræðingum og lýðheilsufræðingi sem störfuðu á vettvangi SÁÁ. Ákvörðunin var tekin vegna aðsteðjandi rekstrarvanda SÁÁ og tekjutaps þar sem ekki verður hægt að ráðast í hina árlegu Álfasölu.

Í gær sögðu þrír af níu í framkvæmdastjórn SÁÁ af sér í mótmælaskyni við framgöngu formannsins. Þá hefur mikil ólga komið upp í baklandi samtakanna, m.a. í 48 manna stjórn þeirra. Hafa margir félagsmenn tjáð sig opinberlega og lýst miklum áhyggjum yfir því að Valgerður hafi ákveðið að segja starfi sínu lausu.

Í samtali við mbl.is í gær sagði Arnþór Jónsson að enginn ágreiningur væri uppi milli sín og Valgerðar. Það væru einfaldlega „kjaftasögur.“ Stangast sú fullyrðing á við upplýsingar sem Morgunblaðið hefur eftir stjórnarmönnum í samtökunum sem lýst hafa langvarandi átökum þeirra í millum. Síðastliðið haust lét Valgerður formlega í ljós áhyggjur sínar vegna framkomu formanns SÁÁ í hennar garð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert