Ekki búist við harðari aðgerðum

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í …
Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir á fundinum í dag. Ljósmynd/Lögreglan

Ekki er gert ráð fyrir að grípa þurfi til hertrai aðgerða til að bregðast við útbreiðslu kórónuveirunnar miðað við núverandi þróun faraldursins. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi almannavarna fyrir skömmu. Hann segir útgöngubann vera neyðarúrræði sem aðeins á að grípa til sé komið í óefni. Hann ítrekaði þó það sem fram kom á fundinum í gær, að búist væri við að núverandi samkomubann yrði framlengt.

Víðir var á fundinum spurður af hverju ekki væri farið í hertar aðgerðir núna strax til að koma í veg fyrir meiri skaða. Svaraði hann því til að hann sæi ekki ástæður fyrir hertum aðgerðum að svo stöddu væri ekki þörf á þeim. Slíkt væri tjón fyrir samfélagið og myndi valda gríðarlegu tjóni.

„Það yrði mikið samfélagslegt tjón af útgöngubanni. Meðan við teljum það ekki skila sérstökum árangri þá er engin ástæða til að skemma samfélagið frekar,“ sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn og bætti við að núgildandi samkomubann hefði þegar haft gríðarleg áhrif á samfélagið.

Þórólfur tók undir þessi orð Víðis og sagði að með hertum aðgerðum væri aðallega verið að færa faraldurinn seinna. „Við getum ekki sloppið við hann.“ Því væri reynt að milda áhrifin eins og hægt væri. Sagði hann að ef til væru lyf eða bóluefni gegn veirunni væri slíkt auðvitað notað, en það væri ekki staðan. Önnur leið hefði verið að loka öllu samfélaginu alveg. Það myndi hins vegar „valda gríðarlegum skaða“.

Alls eru 19 manns á spítala vegna COVID-19, sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur. Þetta kom fram í máli Þórólfs Guðnasonar sóttvarnalæknis á blaðamannafundi almannavarna fyrir skömmu. Þá hafa 16 verið útskrifaðir af sjúkrahúsi. Sex eru á gjörgæslu Landspítalans og allir í öndunarvél og eru sjúklingarnir allir um og yfir sjötugt.

Þórólfur sagði að matið á faraldrinum væri svipað nú og í gær. „Hann er í hægum vexti en ekki veldisvexti og fylgir enn líklegustu spá.“ Hins vegar fylgi innlagnir á gjörgæslu verstu spám. Endurskoðað spálíkan Háskóla Íslands verður gefin út eftir helgi.

Yfir 60% þeirra sem greindust síðastliðinn sólarhring voru í sóttkví, en það er álíka hlutfall og undanfarna daga. Segir Þórólfur það til marks um að aðgerðir skili árangri. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert