Eldur kom upp í Röstinni

Eldur kom upp í Röstinni í Reykjanesbæ í nótt.
Eldur kom upp í Röstinni í Reykjanesbæ í nótt. mbl.is/Eggert

Brunavarnir Suðurnesja voru kallaðar út í nótt vegna elds í Röstinni í Reykjanesbæ, en um er að ræða gamalt frystihús sem hefur verið breytt í íbúðir, auk þess sem verkstæðisgeymsla er í húsinu. 20-25 manns búa í húsinu og var það rýmt, en slökkviliði gekk greiðlega að slökkva eldinn og var íbúum aftur hleypt inn í morgun.

Ármann Árnason, varðstjóri hjá Brunavörnum Suðurnesja, segir í samtali við mbl.is að fólk búi í íbúðum á tveimur hæðum í húsinu, en á neðstu hæðinni séu geymslur og meðal annars verkstæðisgeymsla. Í einni slíkri hafi verið tveir bílar og kviknað hafi í öðrum þeirra.

„Það var kolsvartur reykur sem kom út og það þurfti að rýma tvær hæðir á meðan verið var að slökkva,“ segir hann. Ármann segir að slökkviliðið hafi fljótlega náð að opna verkstæðið og þannig hafi mestur reykur farið út. Í kjölfarið hafi greiðlega gengið að slökkva eldinn.

Röstin í Reykjanesbæ. Eldur kom upp í húsnæðinu í nótt, …
Röstin í Reykjanesbæ. Eldur kom upp í húsnæðinu í nótt, en vel gekk að slökkva. Mynd/ja.is

Hann segir að húsnæðið hafi verið innréttað með fjölda íbúða og þar búi nú að mestu erlendir ríkisborgarar. Það hafi þó ekki haft áhrif á hvernig gekk að rýma húsnæðið. Um hálftíma eftir að búið var að rýma húsið fékk fólk að snúa aftur inn, en útkallið kom klukkan 3:15 í nótt og var búið að slökkva klukkan hálf fimm að sögn Ármanns.

„Þetta leit ekki vel út þegar við komum, en við náum fljótt að drepa í. Það var ekki stór hætta á ferðum,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert