Engin ný smit á Austurlandi

Frá Egilsstöðum.
Frá Egilsstöðum. mbl.is/Arnar Þór

Engin ný smit kórónuveirunnar hafa greinst á Austurlandi síðastliðinn sólarhring. Sextán sýni voru tekin í gær en niðurstöður margra þeirra hafa ekki fengist enn, en ættu að liggja fyrir á morgun.

Staðfest smit í landshlutanum eru því enn fimm talsins, að því er fram kemur í tilkynningu frá aðgerðastjórn almannavarna á Austurlandi.

Í kjölfar smitrakningar hefur þeim sem eru í sóttkví fjölgað lítillega. Alls eru nú 216 manns í sóttkví á Austurlandi en þeir voru 209 í gær.

Í tilkynningunni segir að aðgerðastjórnin fundi daglega vegna ástandsins. Í henni eiga sæti fulltrúar lögreglu, Heilbrigðisstofnunar Austurlands, sveitarfélaganna tveggja Fjarðabyggðar og Fljótsdalshéraðs, fyrir hönd félagsþjónustu þeirra sem sinnir öllu Austurlandi, og fulltrúi Rauða krossins.

Skipulagið reynst vel

Bent er á að almannavarnanefnd Austurlands komi saman til fundar á mánudag, en nefndin fundar vikulega. Í henni sitja fulltrúi lögreglu, fulltrúar allra sveitarfélaga á svæðinu sem og fulltrúar slökkviliðanna tveggja í Fjarðabyggð og Fljótsdalshéraði. Þá hafi fulltrúar frá Heilbrigðisstofnun Austurlands, Rauða krossinum, Landsbjörg og tollgæslunni mætt á fundi nefndarinnar, auk fulltrúa frá ISAVIA vegna alþjóðaflugvallarins á Egilsstöðum og Smyril Line vegna Norrænu á Seyðisfirði.

Tekið er fram að það sé mat þeirra sem sitja í almannavarnanefnd og aðgerðastjórn að skipulagið hafi reynst vel og sé skilvirkt.

Þá sé rétt að hafa í huga þessu til viðbótar að margir smærri hópar séu starfandi á svæðinu á vegum þessara og fleiri stofnana og félagasamtaka. Allir hafi þeir sama markmið að leiðarljósi, að aðstoða íbúa sem þess þurfa, „og koma okkur þannig í gegnum þetta verkefni saman“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert