Hundruð tilkynninga um brot á samkomubanni

Frá blaðamannafundi almannavarna í dag. Gestur fundarins var Regína Ásvaldsdóttir …
Frá blaðamannafundi almannavarna í dag. Gestur fundarins var Regína Ásvaldsdóttir frá velferðarsviði Reykjavíkurborgar. Ljósmynd/Lögreglan

Tilkynningar til lögreglu vegna brota á samkomubanni skipta hundruðum síðasta sólarhringinn. Þetta sagði Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn á blaðamannafundi almannavarna fyrir skömmu. „Það voru mikil vonbrigði að vakna við þennan fjölda tilkynninga,“ segir Víðir.

Hann sagði óskandi að fólk væri smám saman að átta sig á að lífið væri ekki eðlilegt um þessar mundir og að fólk yrði að haga lífi sínu á annan hátt til að tryggja að áhrif veirunnar verði minni en ella.

Víðir beindi í lok fundar orðum sínum sérstaklega að ungu fólki, sem hann sagði að hefði staðið sig frábærlega. „Hjálpið okkur að minna okkur á þegar við erum ekki að standa okkur. Við sem erum að gleyma okkur þurfum að taka öllum tilmælum vel og það þurfa allir að hjálpast að.“

Frá því hert samkomubann tók gildi á mánudaginn hafa samkomur 20 manna eða fleiri verið óheimilar nema að fengnum undanþágum. Þá ber fólki að halda tveggja metra samskiptafjarlægð. Sektir á bilinu 50-500 þúsund krónur geta legið við því að brjóta reglurnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert