Orlofshúsin ekki ætluð fyrir sóttkví

Horft yfir sumarhúsabyggðina í Úthlíð.
Horft yfir sumarhúsabyggðina í Úthlíð. mbl.is/Golli

Í vikunni vakti BHM athygli á því að óheimilt væri að nota orlofshúsnæði félagsins sem stað til að vera í sóttkví. Var vísað til leiðbeininga Landlæknis um að fólk ætti ekki að yfirgefa heimili sín og bent á að ef orlofshúsin væru nýtt í slíkt myndi það stefna umsjónarmönnum húsanna og þeim sjóðsfélögum sem koma næst í húsin í hættu. Fleiri félög hafa sent þessi tilmæli til félagsmanna og á vettvangi ASÍ eru skilaboðin um þetta skýr, húsin eru ekki ætluð fyrir fólk í sóttkví.

Gissur Kolbeinsson, rekstrar- og fjármálastjóri BHM, segir í samtali við mbl.is að ekki hafi komið upp tilfelli þar sem fólk hafi nýtt húsin í sóttkví. Tilkynningin hafi verið hluti af viðbragði félagsins sem hafi verið sett af stað vegna aðstæðna út af útbreiðslu kórónuveirunnar.

Segir hann að auk þess að beina þessum tilmælum til fólks hafi félagið farið í aðgerðir og meðal annars tekið húsin úr útleigu í miðri viku til að hvíla þau á milli útleigutímabila. Þá hafi áhersla verið lögð á að umsjónarmenn húsanna væru einangraðir frá leigjendum og þrif aukin auk þess að sótthreinsa sorpgeymslur og fleti eins og opnanir á veghliðum.

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir í samtali við mbl.is að álíka tilmæli hafi verið send félagsmönnum VR. Þá hafi málið verið rætt á vettvangi ASÍ. „Skilaboðin eru alveg skýr hvað þetta varðar frá verkalýðshreyfingunni,“ segir hann. Þau eigi ekki að vera nýtt sem sóttkví. Hann hefur ekki heyrt af því að hús VR hafi verið nýtt í slíkum tilgangi.

Læknafélag Íslands er einnig meðal félaga sem hafa sent viðlíka tilmæli til félagsmanna sinna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert