„Ótrúlegustu sérfræðingar sem dúkka upp“

Það reynir á að finna lausnir á hjúkrunarheimilum í samkomubanni, …
Það reynir á að finna lausnir á hjúkrunarheimilum í samkomubanni, bæði hvað afþreyingu og ýmsa þjónustu varðar. mbl.is/Golli

„Fólk í sóttkví heima reynir að að vera ekki á náttfötunum allan daginn. Við viljum vakna og halda rútínu eins og venjulega, fara í sturtu og klæða okkur. Flestir eru þannig allavega. Á sama hátt erum við að hugsa hvernig íbúarnir okkar vilja hafa það og hárgreiðslan er mjög stór hluti af því, að fólk fái þessa lagningu.“

Þetta segir Jórunn Frímannsdóttir, forstöðukona hjúkrunarheimilisins Droplaugarstaða, en loka hefur þurft bæði hárgreiðslu- og snyrtistofu heimilisins vegna kórónuveirufaraldursins sem nú geisar.

Starfsfólk sem vant er að sinna öðrum störfum hefur því tekið að sér hárgreiðsluverkefni og naglasnyrtingu. Keyptar hafa verið rúllur, hárlakk, lagningarvökvi og allt mögulegt sem þarf til að hugsa um hárið.

Starfsfólk hefur meðal annars tekið að sér lagningu sem er …
Starfsfólk hefur meðal annars tekið að sér lagningu sem er ómissandi hjá mörgum. Ljósmynd/Aðsend

„Þetta hefur í raun gengið ótrúlega vel og það eru allir tilbúnir að leggjast á eitt. Það eru ótrúlegustu sérfræðingar sem dúkka upp. Þetta er auðvitað stór vinnustaður og hér eru margir sem jafnvel hafa komið að því að vinna við eitthvað eða haft áhugamál á þessu sviði og eru þá að kenna hinum. Svo færist þekkingin á milli, hvernig á að nota lagningarvökva og gera hitt og þetta,“ segir Jórunn.

„Þetta hristir hópinn saman en getur á sama tíma orðið mjög þrúgandi því fólk er svolítið fast í sinni einingu, með sama starfsmanninum mikið og þá reynir á. Það reynir auðvitað á alla í samfélaginu okkar í dag,“ bætir hún við.

Dropavisjón til að létta lundina í húsinu

Til að létta lundina í húsinu á erfiðum tímum var settur í gang leikurinn Dropavisjón, en eins og nafn leiksins gefur til kynna tengist hann Eurovision með beinum hætti. Hann fer þannig fram að hver eining í húsinu mun búa til atriði við lagið Think about Things með Daða og gagnamagninu, sem átti að vera framlag Íslands til keppninnar í ár.

Keypt hefur verið allur nauðsynlegur búnaður fyrir hárgreiðslu- og snyrtistofu.
Keypt hefur verið allur nauðsynlegur búnaður fyrir hárgreiðslu- og snyrtistofu. Ljósmynd/Aðsend

„Það er að skapast stemning og fólk er byrjað að hugsa út fyrir boxið um hvað það geti gert,“ segir Jórunn, en hugmyndin er að hver eining, sem samanstendur af átta til tíu íbúum auk starfsfólks, búi til þriggja mínútna vídeó. „Þetta er hugsað sem eitthvað sem verið er að gera með íbúunum. Að virkja starfsfólk í að draga íbúana með í eitthvað — sameinast. Við erum spennt að sjá hverju þetta skilar,“ segir hún.

„Einingarnar eru svo mikið lokaðar og við höfum takmarkað mikið umgang um þær þannig að fólk er svo mikið þar. Með þessum hætti getum við gert eitthvað þar og tekið upp á vídeó. Því er svo bara skilað rafrænt þannig það er enginn aukaumgangur eða aukin hætta samfara þessu en allir geta haft gaman af.“

Óttinn við að smit komi upp vofir yfir

Hugmyndin að Dropavisjón er frá Jórunni sjálfri komin. „Þetta er hugmynd sem flaug í gegnum kollinn á mér einn morguninn þegar ég hugsaði að við hlytum að geta gert eitthvað. Vonandi verður þetta skemmtilegt. Við stjórnendurnir ætlum að dansa. Við erum að æfa okkur á hverjum degi ásamt starfsfólkinu í eldhúsinu, en við höfum auðvitað tvo metra á milli okkar. Þetta hefur skapað góða stemningu og léttir andann.“

Jórunn fékk hugmyndina að Dropavisjón og vonar að keppnin skapi …
Jórunn fékk hugmyndina að Dropavisjón og vonar að keppnin skapi góða stemningu.

Jórunn segir alveg nauðsynlegt að hafa gaman þótt það vofi auðvitað yfir öllum ótti við að smit komi upp í húsinu, en fram að þessu hafa bæði starfsfólk og íbúar sloppið. Tveir íbúar eru hins vegar í sóttkví og fimm starfsmenn. „Maður finnur alveg hvað það er mikil alvara í öllum þótt maður sé að reyna að búa til eitthvað létt og skemmtilegt, en fólk gleymir sér sem betur fer inn á milli.“

Mikilvægt að halda aðstandendum vel upplýstum

Sjálf er Jórunn hætt að fara inn á hæðirnar á Droplaugarstöðum en hún segir engan vafa leika á því að það sé íbúum erfitt að geta ekki fengið heimsóknir. „Ég hitti íbúa ekkert nema hérna á neðstu hæðinni, en þetta breytir svo miklu. Aðstandendur eru svo vanir því að koma inn eftir vinnu. Þannig vorum við til dæmis með bíósýningu um allt hús í gær á þeim tíma. Við erum að reyna að finna upp á einhverju til að gera á þeim tíma sem aðstandendur hafa verið lykilatriði í starfseminni.“

Jórunn leggur mikið upp úr því að halda aðstandendum vel upplýstum, meðal annars með reglulegum pistlum sem hún birtir á facebooksíðu Droplaugarstaða. Þá sendir hún líka út tölvupósta á póstlista aðstandenda með enn ítarlegri upplýsingum. „Ég held það sé ofboðslega mikilvægt á þessum tíma að halda fólki upplýstu og ég hvet önnur hjúkrunarheimili til að gera það. Annars fá aðstandendur engar fréttir og fólk er svolítið í tómi. Við erum kannski sjálf líka aðstandendur íbúa á öðrum hjúkrunarheimilum sem við getum ekki heimsótt. Þannig verður maður að setja sig í spor annarra, hvernig maður sjálfur myndi vilja hafa þetta.“

Droplaugarstaðir hafa líka fjárfest í nokkrum iPad-spjaldtölvum til að auðvelda íbúum og aðstandendum að eiga rafræn samskipti, en Jórunn segir starfsfólkið allt af vilja gert til að hjálpa til við slík samskipti þótt þau henti auðvitað ekki öllum.

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman