„Þetta var óþægileg reynsla“

Valdimar Khadir Árnason.
Valdimar Khadir Árnason. Ljósmynd/Aðsend

Valdimar Khadir Árnason var í dag meinuð innganga inn í Þýskaland hvar hann var á leið til vinnu. Hann situr nú fastur á flugvellinum í Frankfurt og bíður þess að komast heim til Íslands.

Valdimar átti að hefja vinnu sem flugvirki í Þýskalandi 1. apríl. Nokkrir skólafélagar hans úr flugvirkjanáminu voru þegar komnir á áfangastað en Valdimar lenti í því að flugferðin sem hann átti bókaða var felld niður. Hann þurfti því að bóka nýja flugferð sem síðan var frestað og hann endaði á því að þurfa að millilenda í London þar sem hann gisti í gærkvöldi. Hann flaug síðan frá London til Frankfurt í dag. 

„Ferðin gekk alveg vel þangað til ég kom hingað. Samningurinn minn var skoðaður í London og mér hleypt í gegn þar þannig að ég hélt að allt væri í góðu. Síðan lenti ég hér og þá kom lögreglan og tók mig til hliðar. Síðan vildu þeir fá samninginn, ástæðu fyrir því af hverju ég væri að koma og svona,“ segir Valdimar í samtali við mbl.is. 

„Það hefur greinilega eitthvað gerst bara síðasta sólarhringinn, einhver lög tekið gildi eða eitthvað sem gerði það að verkum að aðeins ríkisborgarar eða þeir sem eru með dvalarleyfi fá að koma inn í landið. En vinnan mín vissi það ekki, þau voru að frétta það bara í dag þannig þetta var í rauninni bara „worst case scenario“ fyrir mig.“

Vondur tími fyrir tekjumissi

Valdimar er nú strandaglópur á flugvellinum í Frankfurt og fær ekki að fara neitt, en vonast til að komast heim til Íslands á morgun. 

„Ég fæ ekki leyfi til að fara neitt, alveg stranglega bannað. Þá verð ég bara handtekinn. Þeir eru með vegabréfið mitt og svona.“

Valdimar segist ætla aftur til Þýskalands þegar það er möguleiki, enda vonast hann til þess að það starf sem hann á að sinna þar í landi verði hans framtíðarstarf. Hann veit þó ekki hvenær það verður. 

„Þetta er frekar vondur tími til að missa af tekjum þannig ég skráði mig á atvinnuleysisbætur heima.“

Menn með riffla og byssur

Valdimar segir það hafa verið óþægilega lífsreynslu að ganga inn á flugvöll og vera mætt með álíka viðmóti og hann fékk í dag.

„Þetta var svolítið óþægilegt. Maður er ekki vanur því komandi frá Íslandi að menn séu með riffla og byssur. Þetta var bara óþægilegt. Það var ekkert klósett eða neitt og maður fékk ekki að fara neitt fyrr en maður fékk leyfi þegar það var búið að ganga frá öllu. Þannig maður var bara sitjandi þarna í einhverja þrjá, fjóra tíma að bíða og svara nokkrum spurningum. Þetta var óþægileg reynsla.“

Valdimar segir að nokkrir aðrir úr sama flugi hafi lent í svipuðum aðstæðum. 

„Það voru einhverjir Þjóðverjar að fara heim og það var ekkert mál fyrir þá. Síðan voru flestir að fara eitthvert annað úr tengiflugi. En svo var einhver körfuboltamaður sem var að koma frá Spáni sem festist líka hérna. Svo var einn maður frá London sem á konu sem býr hérna og er að fara að fæða en hann fékk ekki inngöngu í landið. Við erum bara búnir að vera saman í þessu,“ segir Valdimar.

mbl.is