Uppsögn formanns myndi engu breyta

Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi.
Valgerður Á. Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta snýst ekki um einhverja einstaka menn, mig eða aðra,“ segir Valgerður Rúnarsdóttir, yfirlæknir á Vogi, spurð hvort hún muni draga uppsögn sína til baka nú þegar formaður SÁÁ hefur boðist til að segja af sér.

Valgerður tilkynnti uppsögn sína í fyrradag en ástæðan er óánægja hennar með þá ákvörðun stjórnar samtakanna að segja upp átta starfsmönnum í hagræðingarskyni. Valgerður segir að til greina komi að hún dragi uppsögn sína til baka, en til þess þurfi að afturkalla ákvarðanir um uppsagnir og breyta verkferlum. „Það er mikilvægt að skýrt sé hver skilin eru milli stjórnar og fagstjórnenda [á Vogi].“ Stjórnendur á Vogi þurfi að hafa aðkomu að svo stórum ákvörðunum.

Starfsmenn lækka í launum um 20%

Fyrirséð er að sjálfsaflafé Vogs, sem stendur undir um 30% af kostnaði við reksturinn, verði 150 milljónum króna lægra í ár en í fyrra, segir Valgerður. 

„Það þarf að grípa til aðgerða, en ég myndi vilja að það væri markvissar reynt að fá yfirvöld til að koma til móts við okkur. Ég hef ekki nokkra trú á öðru en að það verði hægt,“ segir hún. Starfsmenn hafi þegar tekið á sig 20% launalækkun og segir hún þá breytingu sjálfsagða og að allir hafi á henni skilning.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert