Veiran langversta áfallið til þessa

Langtímastæðin við Leifsstöð standa nánast auð þessa dagana.
Langtímastæðin við Leifsstöð standa nánast auð þessa dagana. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, segir útlit fyrir 20% atvinnuleysi í sveitarfélaginu vegna kórónufaraldursins. Þetta sé fjórða meiriháttar áfallið fyrir bæjarfélagið á öldinni og það „langþyngsta“. Í fyrsta lagi hafi brotthvarf varnarliðsins 2006 verið mikið högg.

„Þegar herinn fór höfðu menn smáaðdraganda og gátu brugðist við með aðgerðum til að skapa störf. Þá fylgdi mikið atvinnuleysi í kjölfarið. Margir höfðu verið á tiltölulega háum launum hjá hernum án þess að hafa mikla viðurkennda grunnmenntun úr íslensku skólakerfi. Þegar herinn fór þurfti þetta fólk að sætta sig við miklar skerðingar og kannski fara í önnur og lægra launuð störf. Starfsþjálfun þeirra eða menntun hjá hernum nýttist ekki, eða var ekki viðurkennd til launa. Það einkenndi það erfiðleikatímabil,“ segir Kjartan Már í Morgunblaðinu í dag.

Framboð af ódýru húsnæði

Í öðru lagi hafi bankahrunið haustið 2008 komið hart niður á bænum. „Eftir að herinn fór varð mikið framboð af ódýru húsnæði. Það átti þátt í að hingað streymdi fólk. Það má segja að fótunum hafi verið kippt undan þeim sem fluttust hingað í þeirri von að fá ódýrt húsnæði og vinnu; höfðu húsnæði en ekki vinnu í bankahruninu. Það var þungur pakki í félagsþjónustunni, hjá verkalýðsfélögunum og hjá Vinnumálastofnun í atvinnuleysisbótum. Þá var talsvert um að fólk flytti utan, t.d. til Noregs og fengi vinnu þar. Það verður varla reyndin núna því kórónuveirufaraldurinn er heimsfaraldur.“

Í þriðja lagi hafi verið mikill vöxtur í ferðaþjónustu eftir eldgosið í Eyjafjallajökli árið 2010. Þau umsvif hafi haft gríðarleg áhrif á atvinnulífið og átt þátt í mikilli íbúafjölgun. Með falli WOW air í lok mars í fyrra hafi hafist samdráttarskeið í ferðaþjónustu og árstíðasveiflan aukist aftur. Í fjórða lagi hafi faraldurinn lamað flugsamgöngur og stóran hluta atvinnulífs á svæðinu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert