Áfengi „skammgóður vermir sem gerir ógagn“

Alma Möller landlæknir.
Alma Möller landlæknir. Ljósmynd/Lögreglan

Alma Möller landlæknir segir að aukin sala á áfengi hér á landi valdi áhyggjum og varar við notkun þess nú á meðan á faraldri stendur. Þetta var meðal þess sem kom fram á upplýsingafundi almannavarna í dag.

Alma fór yfir stöðu smita, sjúklinga og tölur um fólk í einangrun áður en hún vék orðum sínum að lýðheilsu. Fór hún meðal annars yfir að nú þyrfti að huga vel að vel að geðheilsu ekki síður en líkamlegri heilsu. „Ég vil ítreka sérstaklega að það er ekki gagnlegt að nota áfengi til að takast á við erfiðar tilfinningar eða kvíða,“ sagði Alma. „Það er skammgóður vermir sem gerir ógagn.“

Sagði hún aukna sölu áfengis, sem greint hefði verið frá undanfarið, valda áhyggjum. Benti hún á að neysla áfengis veikti ónæmiskerfin og hefði neikvæð áhrif á heilsuna. Þá dreifi áfengisneysla einnig dómgreind og sagði Alma að þannig yrði meiri hætta á að „við hlýðum ekki Víði“ og vísaði þar í orðatiltæki sem hefur farið víða á samfélagsmiðlum undanfarið um að fólk eigi að hlýða Víði Reynissyni, yfirlögregluþjóni hjá almannavarnardeild ríkislögreglustjóra.

Alma minntist einnig á að í ástandi sem þessu væri hætta á að heimilisofbeldi myndi aukast og hvatti hún fólk allt til að vera á varðbergi.

Að lokum nefndi Alma að á tímum sem þessum væri tilvalið að gæta vel að svefni, en hann væri mikilvæg undirstaða góðrar heilsu. Þar hjálpi áfengi ekki til þótt margir telji svo vera. „Áfengi getur hjálpað fólki að sofna, en það rýrir gæði svefns,“ sagði hún að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert