Brutust inn og deildu ISIS-myndböndum

Ingvar Geirsson, eigandi Lucky Records.
Ingvar Geirsson, eigandi Lucky Records. mbl.is/Styrmir Kári

Brotist var inn á facebooksíðu plötuverslunarinnar Lucky Records á dögunum. Tókst óprúttnum huldumönnunum að kaupa facebookauglýsingar af reikningi fyrirtækisins fyrir um 500.000 krónur fyrir óþekkt fyrirtæki úti í heimi. Í kjölfarið tóku áróðursmyndbönd fyrir hryðjuverkasamtökin ISIS að birtast á síðunni, sem varð til þess að Facebook lokaði henni.

Ingvar Geirsson, eigandi verslunarinnar, segir að hann hafi ekki áttað sig á innbrotinu fyrr en síðunni var lokað. „Ég var algjörlega blindur á allt það sem gerðist,“ segir Ingvar, sem var erlendis meðan á þessu stóð.

Ingvar hefur staðið í ströngu undanfarna daga í baráttunni fyrir því að fá aftur aðgang að síðunni og endurheimta féð. Hann segir að þökk sé viðskiptabanka hans muni hann sennilega fá endurgreitt, en að erfitt sé að ná eyrum Facebook og fá þá til að opna síðuna að nýju. „Það eru eingöngu gervigreindarkerfi sem svara og það gefast engin tækifæri til að tala við manneskju og útskýra sitt mál.“ Líkir hann baráttunni við rimmu Davíðs og Golíats.

Ingvar vill benda öllum þeim sem kaupa auglýsingar hjá Facebook á að yfirfara reikninga sína og setja takmarkanir á hve miklu er hægt að verja í auglýsingakaup á aðganginum hverju sinni.

mbl.is