Fjöldi smita yfir eitt þúsund hér á landi

Kórónusmit hér á landi eru nú komin yfir eitt þúsund.
Kórónusmit hér á landi eru nú komin yfir eitt þúsund. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Staðfest hafa verið 1.020 smit af völdum kórónuveirunnar hér á landi, en 57 smit bættust við frá klukkan 13 í gær. Þetta kemur fram á vefsíðunni covid.is, en þar birtast tölur um fjölda smita og aðrar upplýsingar um veiruna á hverjum degi.

54 smit voru greind af sýkla- og veirufræðideild Landspítalans, en tvö hjá Íslenskri erfðagreiningu. Samtals tók sýkla- og veirufræðideildin 359 sýni í gær en Íslensk erfðagreining 490. Var hlutfall greindra smita því 15% af heildarfjölda sýna hjá sýkla- og veirufræðideildinni en 0,4% hjá Íslenskri erfðagreiningu.

Í einangrun eru nú 894 einstaklingar, 19 eru á sjúkrahúsi og sex á gjörgæslu samkvæmt tölunum. Ragnar Freyr Ingólfsson, yfirlæknir á covid-göngudeild Landspítalans, staðfesti hins vegar við mbl.is fyrir hádegi að átta væru á gjörgæslu.

Þá segir á covid.is að 124 hafi batnað og að 9.531 sé í sóttkví. Samtals hafa 4.796 lokið sóttkví.

Samtals hafa nú smitast 521 karl og 499 konur. Uppruni 659 smita er nú innanlands, uppruni 284 smita erlendis og ekki er vitað um uppruna 77 smita.

Flest smit hafa greinst á höfuðborgarsvæðinu, 773. Þá hafa 105 smit greinst á Suðurlandi, 47 á Suðurnesjum og 22 bæði á Norðurlandi eystra og vestra. Óstaðsett smit eru 25.

Í heildina hafa verið tekin 15.484 sýni.

mbl.is