Hagkaup hætt við afslátt og loka nammibörum

Inngöngubann er í nammilandi.
Inngöngubann er í nammilandi. mbl.is/Þórður Arnar Þórðarson

Nammibörum í verslunum Hagkaupa hefur verið lokað. Þetta staðfestir Sigurður Reynaldsson, framkvæmdastjóri Hagkaupa, í samtali við mbl.is.

Áður stóð til að loka þeim á mánudag — þangað til yrði 70% afsláttur á namminu. Á samfélagsmiðlum hafa margir viðskiptavinir furðað sig á þessu útspili verslunarinnar, að hvetja fólk til nammikaupa næstu daga á tímum smithættu vegna kórónuveirunnar.

Sigurður segir að það hafi þó ekki verið hugmyndin. „Afslátturinn fór í óbeina auglýsingu á miðlum, sem varð til þess að við sáum ekki fram á að geta virt tveggja metra regluna. Því töldum við réttast að loka þeim strax,“ segir Sigurður.

Kórónuveirufaraldurinn hefur haft nokkur áhrif á vöruframboð í Hagkaupum, en verslunin hefur einnig hætt sölu á grilluðum kjúkling auk þess sem salatbörum var lokað í gær.

Spurður hvað verði um nammið, segir hann að því hafi nú verið pakkað á besta mögulega hátt. Mismunandi sé hve lengi vörurnar endast og það velti á því hversu lengi faraldurinn stendur yfir hve mikið nammi muni skemmast.

mbl.is