Helmingur fær fylgikvilla

Karl Kristinsson læknir starfar í Ósló.
Karl Kristinsson læknir starfar í Ósló.

„Fólk er mjög upptekið af dánartíðninni, sem eðlilegt er, en minna hefur verið talað um annað; það er að helmingur þeirra sem fá ARDS eða brátt andnauðarheilkenni fær fylgikvilla eftir veikindin og kemur til með að búa við skert lífsgæði. Það er sláandi,“ segir Karl Kristinsson, svæfinga- og gjörgæslulæknir við Ríkisspítalann í Ósló, um fólk sem veikist alvarlega af kórónuveirunni.

„Það er engin leið að segja til um það,“ segir Karl, spurður hvenær hann haldi að lífið verði aftur komið í eðlilegt horf eftir kórónuveirufaraldurinn. „Hér er búið að loka öllu fram í miðjan apríl en mér segir svo hugur að sá tími verði mun lengri. Faraldurinn virðist vera í rénun í Kína sem er góð vísbending fyrir okkur. En ef ég á að vera alveg hreinskilinn á ég samt ekki von á því að lífið geti farið að ganga sinn vanagang hér á Norðurlöndunum fyrr en í haust. Við þurfum sumarið til að ráða niðurlögum þessa vágests.“

Ríkisspítalinn er sérhæfður spítali; þar er engin bráðamóttaka og sjúklingar koma fyrir vikið ekki inn af götunni, heldur eru fluttir þangað í sérhæfða meðferð frá öðrum spítölum í landinu. Má þar nefna stærri skurðaðgerðir og líffæraígræðslu.

Eins og svo margir spítalar hefur Ríkisspítalinn látið tímabundið af öllum valkvæðum aðgerðum, aðeins bráðaaðgerðir verða framkvæmdar á næstunni. Það er gert til að skapa aukið rými fyrir sjúklinga sem smitaðir eru af kórónuveirunni og þurfa á innlögn að halda.
Fyrstu kórónuveirusjúklingarnir lögðust inn á spítalann um síðustu helgi og þegar samtalið fór fram voru þeir fjórir talsins. Karl gengur út frá því að þeim muni fjölga hratt.

„Gjörgæslupláss hérna eru alla jafna á bilinu þrjátíu til fjörutíu en við höfum bætt talsverðu við og reiknum með að taka við öðrum eins fjölda til viðbótar, að minnsta kosti.“

Að sögn Karls eru aðrir spítalar í Ósló búnir að gera sambærilegar ráðstafanir. „Það er meira og minna búið að umbylta öllum spítölum hér í landi,“ segir hann.

Ekki er þó nóg að skapa rými, einnig þarf að manna gjörgæsludeildirnar og í þau störf gengur ekki hver sem er. „Starfið á gjörgæslu snýst um öndunarvélar og annað slíkt og fólk þarf að búa að ákveðinni sérþekkingu, gjörgæsluhjúkrunarfræðingar eru lykilstarfsfólk í þessari meðferð. Ég vona að áætlanir manna í þessum efnum séu raunhæfar.“

Nánar er rætt við Karl í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert