Smit á sængurlegudeild Landspítala

Fimm starfsmenn sængurlegudeildar hafa verið sendir í sóttkví.
Fimm starfsmenn sængurlegudeildar hafa verið sendir í sóttkví. mbl.is/Þórður

Kórónuveirusmit kom í gær upp á sængurlegudeild Landspítalans, þar sem nýbakaðar mæður og börn þeirra dvelja. Þetta staðfestir Ingibjörg Hreiðarsdóttir yfirljósmóðir í samtali við mbl.is en fyrst var greint frá málinu á Vísi. Nýbakaður faðir hafði verið á sængurlegudeildinni með móður og barni í fimm daga, áður en í ljós kom að hann var smitaður.

Ingibjörg segir að gripið hafi verið til umfangsmikilla ráðstafana vegna þessa. „Við höfum verið í samstarfi við farsóttanefnd og endurskoðað reglur um starfsemi og umgengni á deildinni.“ Fimm starfsmenn hafa verið sendir í sóttkví. Þá hefur verið lokað fyrir allar heimsóknir, feðra sem annarra, á sængurlegudeild.

Nokkrar vikur eru síðan tekið var fyrir komu feðra í ómskoðun og mæðravernd. Aðspurð segir Ingibjörg að feður geti enn sem komið er verið viðstaddir fæðingu, svo fremi sem þeir séu ekki í einangrun. Þó geti feður í sóttkví einungis umgengist móður á fæðingardeild sé hún einnig í sóttkví. Ekki er útilokað að taka þurfi fyrir gestakomur á fæðingardeildinni á næstunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert