Við erum öll Siggi

Í öllum bænum hættið ekki að taka til á heimilinu …
Í öllum bænum hættið ekki að taka til á heimilinu þótt þið séu að vinna heima.

Margir eru að upplifa það í fyrsta sinn á þessum afbrigðilegu tímum að vinna sína launuðu vinnu heima. Viðbrigðin eru væntanlega mikil og rútínan getur raskast. Að hverju er einna helst að hyggja við þær aðstæður?

„Hefurðu heyrt um hann Sigga? Hann sest bara upp í rúminu og þá er hann kominn í vinnuna.“

Þessi merku tíðindi færði vinur minn mér fyrir meira en tuttugu árum. Ég vissi auðvitað að Siggi bindur ekki bagga sína sömu hnútum og samferðarmennirnir en á þessum tíma var þetta eigi að síður með nokkrum ólíkindum, meira að segja á hans mælikvarða.

Og við hvað skyldi Siggi hafa starfað? Jú, hann var grafískur hönnuður og þurfti fyrir vikið ekkert nema frambærilega fartölvu til að geta leyst sín verkefni í vinnunni. Ekki fylgdi sögunni hvort Siggi klæddi sig og færi á ról eða hvort hann legðist bara aftur til hvílu að vinnudegi loknum. Þín ágiskun er eins góð og mín, kæri lesandi.

Á þessum undarlegu tímum sem við nú lifum erum við meira og minna öll orðin Siggi. Flest okkar, sem á annað borð geta það, eru farin að vinna heima. Veit að vísu ekki með bifvélavirkja og vörubílstjóra en alltént mjög margir sem eiga tölvu að sínu helsta vinnutæki. Auðvitað eru það engin viðbrigði fyrir suma, rithöfundar koma til dæmis strax upp í hugann. Okkur blaðamönnum er einnig lítið að vanbúnaði að vinna heima. Þannig lagað. Þeir sem standa fréttavaktina þurfa að vísu að vera í góðu sambandi við sína yfirmenn yfir daginn en nú gera þeir það bara fyrir atbeina tölvupósts eða samfélagsmiðla. Sumum gæti meira að segja flogið í hug að taka upp tólið. Þótt það sé auðvitað óttalega 2019.

Við Íslendingar erum vitaskuld ekki einir á þessum báti; þetta á meira og minna við um alla vinnandi menn á byggðu bóli um þessar mundir. Ekki vantar því umfjöllunina og hollræðin þegar maður fer að fletta fjölmiðlum og ráðgefandi síðum á netinu.

Flestum ber saman um grunnatriðin. Þau þurfa að vera í lagi. Að sofa vel, borða vel og hreyfa sig. Þetta þekkjum við svo sem öll.

Svefn, næring, hreyfing

Ástandið í heiminum er streituvaldandi, fólk hefur áhyggjur af eigin heilsu og sinna nánustu og fylgist af vanmætti með faraldrinum fara eins og eldur í sinu um samfélög, ekki síst hér í Evrópu. Á hollræðasíðunni The Leapers Little Guide to ... sem finna má á netinu er lögð áhersla á, að þetta þrennt, svefn, næring og hreyfing, hafi aldrei verið eins mikilvægt. Bæði fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks. Leapers nefnir hreyfinguna sérstaklega enda fylgi heimavinnu alla jafna meiri kyrrseta. Fólk þurfi ekki lengur að koma sér í vinnuna, hvort sem það gerir það fótgangandi, hjólandi, með strætó eða á bíl. Hvetur síðan fólk til að kynna sér einfaldar æfingar sem gera megi heima í stofu en mikið framboð mun vera af þeim í netheimum.

Þegar fólk yfirgefur ekki lengur heimili sín til að fara í vinnuna geta skilin milli vinnu og heimilis orðið þokukennd, sérstaklega ef fólk vinnur mikið í sama rýminu og það ver sínum frítíma og nýtur samveru með fjölskyldu. 

Leapers hvetur fólk til að halda sig við sömu rútínuna og áður; vakna á sama tíma, klæða sig, snæða morgunverð, lesa blöðin, hlusta á útvarp eða hlaðvarp og hreyfa sig, eigi menn því að venjast, áður en þeir „fara“ í vinnuna. Að sama skapi sé mikilvægt í lok vinnudags að hætta alveg að vinna á tilsettum tíma, slökkva á tölvunni og lesa ekki vinnutengda tölvupósta.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert