Aðgerðirnar sem slíkar mjög karllægar

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.
Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar, segir sjálfsagt að skoða hvort endurgreiðsla virðisaukaskatts ætti að nái til fleiri iðngreina, eftir að efnahags- og viðskiptanefnd þingsins samþykkti breytingartillögur á stjórnarfrumvarpi þess efnis um helgina að end­ur­greiðsla á virðis­auka­skatti muni ekki aðeins ná til fram­kvæmda við íbúðir og sum­ar­hús held­ur einnig til bílaviðgerða. 

Frumvarpið sem um ræðir er stjórn­ar­f­um­varp um aðgerðapakka til að mæta efna­hags­leg­um áhrif­um í kjöl­far heims­far­ald­urs kór­ónu­veiru nái það fram að ganga. 

„Til þess að aðgerðin raunverulega virki þarf hún að ná til þjónustuliða sem eru líklegir til að verða sæmilegir að umfangi í kostnaði, þannig að fólk einfaldlega telji þetta skipta máli,“ segir Þorsteinn í samtali við mbl.is. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingflokksformaður Viðreisnar, sagði í samtali við mbl.is í morgun eftir fund þingflokksformanna með þingforseta að gera megi athugasemd við að aðgerðir í frumvarpinu nái frekar til hefðbundinna karlastarfa en kvennastarfa. 

„Ég get alveg tekið undir þá gagnrýni að aðgerðirnar sem slíkar eru mjög karllægar. Í breytingartillögum minnihlutans eru viðamiklar aðgerðir gagnvart nýsköpunar- og tæknifyrirtækjum, þar sem eru kannski jafnari kynjahlutföll en í hefðbundnum iðngreinum. En það þarf að finna leiðir til að horfa til örvunar á hagkerfinu gagnvart hefðbundnum kvennastörfum,“ segir Þorsteinn. 

Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður og þingflokksformaður Viðreisnar.
Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður og þingflokksformaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ágreiningur fjárfestingarhluta aðgerðanna

Reiknað er með að frumvarpið verði afgreitt á Alþingi í dag en önnur umræða hófst á þingfundi í morgun að loknum óundirbúnum fyrirspurnum. 

Stjórnarandstaðan á þingi hefur lagt fram sameiginlegar tillögur um 30 milljarða framkvæmdir á þessu ári til viðbótar við þeim tillögum upp á 20 milljarða sem ríkisstjórnin hefur kynnt. Spurður um samstöðu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á þinginu segir Þorsteinn að auðvitað ríki „ágreiningur varaðandi bandorminn“, það er frumvarpið sem er til umræðu nú, en að minnihlutinn styðji framgang málsins. 

„En við teljum að það þurfi að ganga lengra. Það er meiri ágreiningur um fjárfestingarhluta aðgerðanna, það er fjáraukann og þeirra aðgerða sem gripið er til þar náðist ekki samkomulag í fjárlaganefnd,“ segir Þorsteinn. 

„Það þarf að hafa það í huga að við erum að sjá algjörlega fordæmalausan fjölda einstaklinga sem eru að verða fyrir verulegri tekjuskerðingu þessi mánaðamót og það verður að koma með meiri afgerandi hætti með beina innspýtingu inn í efnahagslífið til að spyrna okkur út úr þessu ástandi þegar sóttvarnaaðgerðum lýkur,“ bætir hann við.mbl.is

Bloggað um fréttina