Grín og garn andvirði 3.000 læka

Jakob tók upp þráðinn þar sem hann slitnaði fyrir góðum …
Jakob tók upp þráðinn þar sem hann slitnaði fyrir góðum áratug og hóf að prjóna í samkomubanninu. Meðal annars vegna þess að hann er karl, uppskar hann gríðarleg viðbrögð þegar hann sagði frá því. Ljósmynd/Aðsend

Neyðin kennir nöktum uppistandara að prjóna, gæti þeim orðið á að segja sem sofnaði á verðinum og leyfði líkingunum að verða óþarflega myndrænum í miðjum heimsfaraldri.

Hvað sem því líður er Jakob Birgisson uppistandari að prjóna eins og handóður maður þessa dagana og sú tilkomulitla staðreynd virðist óendanlega fær um að gleðja mannshjörtu, nú þegar síst er vanþörf á.

Jakob setti mynd af sér inn í facebookhóp. Inntak færslunnar: Ég var að prjóna peysu. Og viðbrögðin? Þrjú þúsund læk og þeim fjölgar bara. Geri aðrir betur, gæti maður sagt, en guð forði kærleika frá leikreglum frjálsrar samkeppni.

„Maður er bara meyr að hópurinn skuli taka mann svona í fangið. Þetta er fyrsta sinn sem ég set eitthvað þarna inn og ég sé strax að þetta er alls ekki síðasta,“ segir Jakob í samtali við mbl.is. Hópurinn er Handóðir prjónarar, 30.000 manna samræðuvettvangur prjónara um land allt.

Bæld ástríða blossaði upp að nýju

Engan skal undra að Jakob skuli ekki hafa vígst inn í þann söfnuð fyrr en nú, enda eru þessar hannyrðir hans nýjar af nálinni. Í samkomubanninu sá hann sæng sína uppreidda – hverri skemmtuninni var aflýst á fætur annarri og iðjuleysið blasti við – og hann brá á það ráð að fara að prjóna. 

„Í grunnskóla lærði ég að prjóna í textílmennt og mér fannst það óvenjugaman. Ég prjónaði nokkrar húfur heima í kjölfarið en svo flosnaði ég upp frá því eins og öðru. Prjónaskapurinn blundaði þó greinilega í mér allar götur síðan, því þegar mér datt í hug að taka upp þráðinn núna 12 árum síðar var eins og bæld ástríða fengi langþráða útrás,“ lýsir Jakob.

Afraksturinn er forláta grá peysa úr sisu-garni sem Jakob prjónaði á kærustu sína, Sólveigu Einarsdóttur. Jakob efast ekki andartak um að Sólveig muni klæðast peysunni við hvert tækifæri þó að hvert tækifæri sé kannski orðum aukið, segir Jakob, sem viðurkennir að Sólveig hafi viðurkennt að peysan verði hugsanlega einkum „heimapeysa“ fyrst um sinn, af praktískum ástæðum: Hún vill fara sérstaklega vel með hana.

Læk og athugasemdir hrannast upp, og ekki ófáar þeirra lýsa …
Læk og athugasemdir hrannast upp, og ekki ófáar þeirra lýsa yfir ánægju með að karlmenn séu farnir að prjóna í auknum mæli. Ljósmynd/Facebook

Safnar grínforða í einangruninni

Sem fyrr segir er helst til lítið um að vera í skemmtanabransanum nú um mundir en Jakob segir ekki þýða að missa móðinn. Hann heldur sér við efnið með prjóninu, og tekst því sem nemur að sniðganga samfélagsmiðla. Vissulega fylgist hann með helstu tíðindum, en er ekki sligaður af upplýsingainntöku eins og lengst af á síðasta ári, þegar hann var handritshöfundur að skaupinu, segir hann. Sporgöngumenn sína í því verki telur hann þegar komna með nokkurt efni að moða úr.

Jakob nýtir sjálfur tímann í að safna efni í nýtt uppistand enda innilokaður með fjölskyldu sinni, sem löngum hefur verið hans helsta umfjöllunarefni í gríninu. Hina stundina stendur hann í framkvæmdum í íbúð sinni í Vesturbænum og nýtur þar aðstoðar tengdaföður síns.

„Ég er orðinn atvinnuleysingi eins og margir fleiri en reyni auðvitað að gera gott úr því og nýta tímann. Síðan kemur maður tvíefldur til baka þegar stundin rennur upp, með nóg af nýju efni. Þeir sem ég umgengst mest eru meira að segja farnir að setja sérstaka fyrirvara um að orð og gjörðir þeirra séu ekki til minna einkanota. En við sjáum hvað ég stend við,“ segir Jakob. Tíminn leiðir í ljós hvort örlög velgjörðamanna grínistans verði þau sömu og þeirra sem slysast til að giftast skáldum.

View this post on Instagram

A post shared by Jakob Birgisson (@jakobbirgis) on Mar 26, 2020 at 1:59pm PDT

mbl.is

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman