Silfurröndin

Logi Bergmann
Logi Bergmann

Logi Bergmann Eiðsson skrifar pistla í sunnudagsblað Morgunblaðsins. Hér er pistill helgarinnar

Í ensku er til hugtak sem heitir silfurrönd (silver lining). Það kom fyrst fyrir í ljóði á 17. öld og þýðir í raun að það gæti verið hægt að finna eitthvað jákvætt við atburði sem eru það alls ekki, eða með öðrum orðum: Fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.

Ég held að það sé aldrei mikilvægara en nú að reyna að hugsa á þennan hátt.

Ef ég væri svokallaður áhrifavaldur þá myndi ég hrinda af stað mikilli herferð þar sem allir kæmu fram með einhver dæmi um það hvernig við getum séð bjartar hliðar á þessu erfiðu tímum. Og ég skal byrja.

Fundir.

Mér reiknast til að ég hafi sennilega eytt tveimur árum ævi minnar á fundum. Fundum! Sennilega einhverju ofmetnasta fyrirbæri sögunnar. Vissulega þarf stundum að koma saman, ræða mál og ákveða, en þetta form samskipta er stórkostlega of- og misnotað.

Ég hef alltaf átt erfitt með fundi. Erfitt með að halda athyglinni nógu lengi til að hlusta á fólk tala sem þekkir engan hljóm fegurri en sína eigin rödd. Tala um það sem í stóru myndinni skiptir engu máli.

Þarna situr maður eins og dæmdur og veit að það er ekki nokkur leið að koma sér út úr þessu. Maður bítur á jaxlinn og reynir að þrauka og hugsa um eitthvað annað. Er ekki bara hægt að setja þetta í tölvupóst?

Stundum held ég að fundir séu bara haldnir til að fólk geti sett eitthvað í dagbókina hjá sér. Búið sér til dagskrá sem geri það að verkum að það líti út fyrir að það sé gasalega upptekið og algjörlega ómögulegt að komast af án þess. Tilgangurinn er ekki aðalatriðið, miklu frekar að geta bókað gott fundarherbergi til að drekka vont kaffi og hlusta á fólk sem hefur í raun ekkert sérlega mikið til málanna á leggja. Ef þið haldið að langir fundir skili einhverju ættuð þið kannski að skella ykkur á tíu tíma fund í borgarstjórn.

Það eru nokkrar týpur fundamanna sem mér finnst erfiðastar. Þeir sem vilja alltaf tala. Þeir byrja gjarnan ræður sínar á að taka undir það sem sá síðasti sagði og helst endursegja það. Þar geta þeir náð sterkum mínútum án þess að koma með neitt frá eigin brjósti. Þá líður þeim best. Svo finnst þeim gott að fara yfir þekktar staðreyndir málsins áður en þeir renna í langa samantekt.

Svo eru þeir sem eru haldnir gagnablæti og vilja helst drekkja öllum fundum í allskonar skýrslum og úttektum og kalla fyrir fundi allskonar fólk. Þetta fólk er sennilega með ákvörðunarfælni og óttast ekkert meira en að fundurinn komist að raunverulegri niðurstöðu. Jafnvel á þann hátt að það verði ekki bókaðir fleiri fundir. Það væri hræðilegt.

Svo eru þeir sem mæta bara á fundi af því þeim er sagt að mæta. Þeir hafa ekkert til málanna að leggja, hlusta jafnvel ekkert og eru víðsfjarri í huganum. Bíða bara eftir að þessi fundir klárist svo þeir komist á þann næsta.

En nú er staðan sú að það eru engir fundir nema í tölvunni. Fundarherbergin standa auð, löngu ræðurnar virka ekkert sérlega vel í fjarfundarbúnaði og smám saman virðist það vera að renna upp fyrir fólki að kannski séu bara of margir tilgangslausir fundir.

Mögulega, þegar allt verður komið í eðlilegt horf, getum við þá hætt að bregðast við öllum málum með því að bóka fundarherbergi? Það væri varanleg silfurrönd.

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Stöndum saman

Við hjá Árvakri viljum vekja athygli á því sem vel er gert á þessum erfiðu tímum. Ef þú ert með góða sögu af fyrirtækjum og einstaklingum sem eru að gera gott, sendu okkur ábendingu á netfangið stondumsaman@mbl.is.

Stöndum saman

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert