„Þurfum að hugsa um fleira en fyrirtæki“

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar.
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fyrir nokkrum dögum kynnti ríkisstjórnin nokkuð sem hún kallaði stærstu efnahagsaðgerðir Íslandssögunnar. Fyrir utan að vera ýkjur blikna þær í samanburði við björgunarpakka nágrannaríkjanna þrátt fyrir að vandinn hér sé miklu meiri vegna gríðarlegs umfangs ferðaþjónustunnar.

Þetta sagði Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi í morgun.

Logi sagði Samfylkinguna auðvitað styðja allar aðgerðir sem miði að því að minnka atvinnuleysi og auka rekstrarhæfi fyrirtækja á meðan kórónuveirufaraldurinn gengur yfir.

„En við þurfum að hugsa um fleira en fyrirtæki, við þurfum að fara í miklu róttækari aðgerðir gagnvart heimilum í landinu, fólkinu sjálfu. Barnabótaaukinn var ágætisleið en þó er einungis 1% af heildarupphæð björgunarpakkans varið í hana og þar fyrir utan er engar sérstakar aðgerðir að finna til einstaklinga og fjölskyldna, engar aðgerðir sem snúa til dæmis að húsnæðisöryggi eða heimilisrekstri,“ sagði Logi.

„Hvenær eigum við von á frekari aðgerðum í þágu fyrirtækja og fólks líka og mun ríkisstjórnin leggja til hækkun á barnabótum? Mun hún auka framlag til vaxta- og húsnæðisbóta til að auka húsnæðisöryggi fólks? Og að síðustu: Mun hæstvirtur ráðherra beita sér fyrir hækkun grunnatvinnuleysisbóta?“

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði að það hefði legið skýrt fyrir frá upphafi að aðgerðir stjórnvalda yrðu endurmetna mjög reglulega einmitt vegna þess að óvissan er mikil.

Stuðningur við barnafólk á Íslandi

„Við kynntum okkar aðgerðir og þær skiptast í bein ríkisútgjöld, brúarlán til atvinnulífs og síðan færslu fjármuna til fólks og fyrirtækja. Ég vil ítreka það að sú leið sem við getum kallað hlutastarfa- eða hlutabótaleið er líklega sú mikilvægasta fyrir fólkið í landinu núna vegna þess sem er að gerast í tekjufalli hjá fyrirtækjum. Mikilvægasta verkefnið okkar er að tryggja það að fólk haldi afkomu sinni með því að halda vinnunni, með því að halda ráðningarsambandi við fyrirtæki,“ sagði Katrín

„Við erum auðvitað í dag að fara að afgreiða þennan sérstakra barnabótaauka sem ég tel að skipti verulegu máli til að koma til móts við barnafólk fyrir utan að núverandi ríkisstjórn hefur að sjálfsögðu hækkað barnabætur verulega við afgreiðslu tvennra síðustu fjárlaga. Við höfum sömuleiðis gefið út yfirlýsingu um að við viljum fara heildstætt yfir stuðning við barnafólk á Íslandi í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins og var sú yfirlýsing gefin núna við undirritun kjarasamninga BSRB við ríki og sveitarfélög,“ sagði Katrín.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert