90 sagt upp hjá Pennanum

Penninn og Eymundsson reka bóka- og ritfangaverslanir víða um land.
Penninn og Eymundsson reka bóka- og ritfangaverslanir víða um land. mbl.is/​Hari

Penninn ehf. tilkynnti í dag Vinnumálastofnun um uppsagnir sem falla undir lög um hópuppsagnir. Alls var 90 starfsmönnum sagt upp störfum hjá fyrirtækinu og var starfshlutfall annarra starfsmanna skert. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Pennanum. Þar segir að uppsagnirnar nái til allra deilda fyrirtækisins, en að aðallega sé um að ræða starfsmenn sem ekki nái 45% starfshlutfalli og falli því ekki undir sérúrræði stjórnvalda um skert starfshlutfall.

„Uppsagnirnar eru óhjákvæmileg afleiðing þess mikla samdráttar sem orðið hefur í þjóðfélaginu vegna Covid-19 veirunnar. Samdrátturinn hefur haft mikil áhrif á rekstur og afkomu Pennans sem hefur tímabundið lokað nokkrum verslunum sínum vegna ástandsins og skert opnunartíma annarra.“

Það er von forráðamanna fyrirtækisins að ástand það sem nú varir gangi yfir á skömmum tíma og að unnt verði að afturkalla sem flestar uppsagnir áður en þær taka gildi.  Um 250 starfsmenn starfa hjá Pennanum í 200 stöðugildum og tekur uppsögnin því til u.þ.b. 35 stöðugilda.

mbl.is