Andlát 42 ára konu tilkynnt til embættis landlæknis

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans. Ljósmynd/Lögreglan

Andlát 42 ára konu hefur verið tilkynnt til embættis landslæknis en konan lést innan við sólarhring eftir að hún var útskrifuð af bráðamóttöku Landspítalans á fimmtudaginn í síðustu viku. 

„Þetta er alvarlegt atvik,“ sagði Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, þegar blaðamaður mbl.is spurðist fyrir um málið á upplýsingafundi almannavarna í dag. Málið hefur verið tilkynnt til embættis landlæknis sem fyrr segir og er í skoðun innan spítalans en Páll segir ekki viðeigandi að hann tjái sig frekar um það eins og er. Hann bendir á að yfir 100 dagar eru frá því að síðast var tilkynnt alvarlegt atvik á Landspítalanum. 

Alma Möller landlæknir segir að andlát konu sem lést innan …
Alma Möller landlæknir segir að andlát konu sem lést innan við sólarhring eftir að hún var útskrifuð af bráðamóttöku verði skoðað ofan í kjölinn. Ljósmynd/Lögreglan

Alma D. Möller landlæknir vottaði aðstandendum konunnar samúð sína og Páll tók undir. 

„Alvarleg atvik, þau koma upp, þau tengjast oft álagi en ekki alltaf. Stundum hefur eitthvað farið úrskeiðis við veitingu heilbrigðisþjónustu, það veit maður ekki fyrirfram og ekki fyrr en búið er að skoða málið ofan í kjölinn eins og við hjá embætti landlæknis gerum um öll atvik sem okkur eru tilkynnt,“ sagði Alma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert