„Efnislega eru þetta breytingar til bóta“

Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Eggert

Þær breytingar sem samþykktar voru á aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar í gær eru að sögn Halldórs Benjamíns Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, almennt góðar og tekið mið af athugasemdum sem settar voru fram við vinnslu málsins.

Atvinnulífið „vankað eftir bylmingshögg“

„Efnislega eru þetta breytingar til bóta,“ segir hann í samtali við mbl.is. Hann segir að við vinnslu laganna hafi verið bent á nokkra þætti þar sem þyrfti að sníða vankanta af og að sér sýnist að það hafi að mestu verið gert. Nefnir hann að viðmið hafi verið víkkuð um þá sem geti nýtt sér aðgerðirnar, en í fyrstu útfærslu hafi viðmiðin verið nokkuð þröngt skilgreind. „Það er mikilvægt að aðgerðirnar séu breiðvirkar, þar sem íslenskt atvinnulíf er vankað eftir bylmingshögg,“ segir Halldór.

Þetta þýði að fleiri fyrirtæki geti nýtt sér aðgerðirnar. Sem dæmi fjölgi þetta fyrirtækjum sem geti nýtt sér frestun gjalda og brúarlánaleiðina, en þar er veitt ríkisábyrgð vegna útlána til fyrirtækja. Þá nefnir hann að ábyrgð ríkisins hafi einnig verið hækkuð á brúarlánunum sem styrki þá aðgerð.

Samtals var um að ræða sex þingmál sem voru samþykkt í gær og voru þau hluti af aðgerðapakka sem hugsaður er til að mæta efnahagslegum afleiðingum af útbreiðslu kórónuveirunnar, og samþykktar voru á Alþingi í gær. Eru þar ýmsar aðgerðir, en Halldór segir að veigamestu atriðin séu frestun opinberra gjalda, hlutastarfaleiðin og fyrrnefnd brúarlánaleið. „Þetta er það sem skiptir mestu máli.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert