Ekki stætt að senda fólk til baka

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Útlendingastofnun hefur ákveðið að breyta mati sínu á þeim aðstæðum sem leitt geta til þess að Dyflinnar- og verndarmál séu tekin til efnismeðferðar hér á landi. Þá mun stofnunin einnig afturkalla sömu mál frá kærunefnd útlendingamála.

Frá þessu greinir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra á Twitter. Þar segir hún að staðan í Evrópu sé með þeim hætti, vegna kórónuveirufaraldursins, að ekki sé stætt að senda fólk til baka á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar eða að það hafi vernd í öðru Evrópulandi.

Þetta mun leiða til þess að mál umsækjenda í Dyflinnar- og verndarmálum, sem áður hafa fengið neikvæða niðurstöðu og eru enn hér á landi, eiga þá möguleika á grunni þess mats að fá efnismeðferð hjá Útlendingastofnun og þar af leiðandi vernd hér á landi.

Áslaug Arna segir ekki ljóst hve hátt hlutfall þeirra mála sem tekin verða til efnismeðferðar muni fá jákvæða niðurstöðu. Gera verði þó ráð fyrir því að það hlutfall veðri nokkuð hátt þar sem töluverður fjöldi hópsins sem umræddar breytingar nái til hafi hlotið viðurkenningu á alþjóðlegri vernd.

Markmiðið með breyttu mati er að draga úr óvissu umsækjenda, ekki síst barna sem bíða nú í kerfinu og ljóst er að verði hér í einhvern lengri tíma vegna COVID-19.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert