Ljóst að starfsemi Vogs sé haldið uppi af spilafíklum

Spilakössum og spilasölum landsins hefur verið lokað vegna smithættu.
Spilakössum og spilasölum landsins hefur verið lokað vegna smithættu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Samtök áhugafólks um spilafíkn (SÁS) segja það ljóst af orðum formanns SÁÁ og yfirlæknis sjúkrahússins að starfsemin sé að miklu leyti borin uppi af spilafíklum, sem sé þvert á það sem haldið hefur verið fram. En eftir að spilakössum og spilasölum var lokað vegna samkomubanns hafi orðið hrun í tekjuöflun samtakanna og að alvarlegur vandi steðji nú að rekstri sjúkrahússins.

„Rekstraraðilar spilakassa og spilasala á Íslandi hafa lengi haldið því fram að reksturinn byggi á frjálsum framlögum sem renni síðan til uppbyggingar Háskóla Íslands og góðgerðarmála, þ.e. Slysavarnarfélagsins Landsbjargar, Rauða kross Íslands og SÁÁ. Hefur þeirri staðhæfingu verið haldið að landsmönnum sem staðreynd. Samtök áhugafólks um spilafíkn, SÁS, hafa hins vegar bent á að þessi staðhæfing sé lítið annað en blekking því tekjurnar stafi að uppistöðu til frá þeim sem eigi um sárt að binda: fólki sem haldið er sjúkdómnum spilafíkn,“ segir meðal annars í yfirlýsingu SÁS.

Ekki hafi liðið nema nokkrir dagar frá lokun spilakassa og spilasala þar til lýst var yfir alvarlegum rekstrarvanda Vogs.

„Vart er hægt að finna neitt sem betur sýnir fram á sannleiksgildi fyrrgreindra varnaðarorða SÁS, að SÁÁ skuli gert að vera háð tekjum af rekstri sem að langmestu leyti er borinn uppi af spilafíklum en ekki framlögum þeirra sem vilja leggja góðum málstað lið. Slíkt er augljóslega hægt að gera þrátt fyrir lokun spilakassa og spilasala. Þetta hlýtur að verða fjárveitingavaldi Alþingis umhugsunarefni ekki síður en aðstandendum SÁÁ.“

Þá sýni málflutningur Rauða krossins einnig að allt tal um að fólk leiti í spilakassa til að styðja gott málefni sé út í hött. Enda hafi framkvæmdastjóri Rauða krossins sagt í viðtali að hætt sé við því að hafi spilarar ekki spilakassana sé hætt við því að þeir leiti í aðra ólöglega starfsemi.

„SÁS leggur áherslu á að framangreint verði alls ekki skilið svo að verið sé að gera lítið úr frjálsum framlögum og styrkjum Íslendinga til góðra málefna – og öll megum við vera sammála um mikilvægi þeirrar starfsemi sem hefur tekjur af rekstri spilakassa. Að gefnu tilefni vegna þrenginga SÁÁ sjá Samtök áhugafólks um spilafíkn ástæðu til að árétta mikilvægi starfsemi SÁÁ. Hér eftir sem hingað til eru því einstaklingar, stofnanir, fyrirtæki og félög hvött til frjálsra framlaga til SÁÁ og annarra stofnana og samtaka sem styrkja stoðir samfélags okkar, til dæmis með framlögum inn á bankareikninga þeirra. Fáir vilja hins vegar að afkoma slíkra samfélagsstoða byggi á neyð þeirra sem haldnir eru fíknisjúkdómi. Fjármunir sem þannig fást eru ekki „frjáls framlög”.“

mbl.is